Enn fleiri hverfahleðslur í borginni

Mynd af hleðslustöð

Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur (OR) og Veitur hafa gengið frá samningi um uppsetningu og rekstur hverfahleðslustöðva við 94 götustæði víðs vegar um borgina. 

Markmiðið er að styðja við orkuskipti í samgöngum með aðgengilegum og notendavænum hleðslulausnum í hverfum borgarinnar.

Í kjölfar undirritunar samningsins hefur Reykjavíkurborg fundað með öllum þeim þjónustuaðilum sem taka þátt í verkefninu og afhent staðsetningarnar þar sem hleðslustöðvarnar verða settar upp. Þó svo að nokkrar staðsetningar séu enn í framkvæmd, er búist við því að meirihluti stöðvanna verði kominn upp og tilbúinn til notkunar innan nokkurra vikna.

Um er að ræða mikilvægt skref í átt að sjálfbærari samgöngum í Reykjavík og bæta þannig enn frekar aðgengi fyrir rafbílaeigendur og auðvelda um leið skiptin yfir í rafbíla. 

Hleðslustöðvarnar verða staðsettar í nálægð við fjölbýlishús og almenn bílastæði, í samræmi við stefnu borgarinnar um að styðja við orkuskipti á bílum íbúa sem ekki eiga kost á að leggja og hlaða bíl á lóð sinni.

Verkefnið er liður í framtíðarsýn Reykjavíkurborgar um loftslagsvænni borg og er unnið í nánu samstarfi við Veitur og OR. Heildarfjöldi hleðslustæða sem ætluð eru almenningi í þessu samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Veitna og OR er nú orðin 372 en auk þess rekur Reykjavíkurborg fjölda hleðslustæða í bílastæðahúsum borgarinnar. 

Við hvetjum íbúa til að fylgjast með uppfærslum á staðsetningum hleðslustöðvanna á vef Reykjavíkurborgar þegar þær koma í notkun.