Engum börnum sagt upp leikskólaþjónustu vegna fjárhagsvanda foreldra

Skóli og frístund

""

Um þessar mundir njóta ríflega 5.200 börn þjónustu í 63 leikskólum borgarinnar. Stefna borgarinnar er að halda gjaldtöku fyrir leikskólaþjónustu í lágmarki og standa vörð um hag barna og fjölskyldna þeirra. 

Ekkert barn á að fara á mis við mikilvæga grunnþjónustu eins og leikskólavist vegna fjárhagserfiðleika eða félagslegrar stöðu foreldra eða annarra forráðamanna.  Verklagsreglur þess efnis voru samþykktar í borgarstjórn árið 2013.

Á hverju ári skapast þær aðstæður að ekki berast greiðslur frá öllum foreldrum fyrir þá þjónustu sem þeir hafa sótt um fyrir börn sín. Þá fer af stað hefðbundið ferli þar sem vakin er athygli forráðamanna á því að greiðslur séu í vanskilum. Flestir forráðamenn bregðast við með því að greiða skuldina eða semja um hana. Ef ekki er brugðist við er sent bréf um fyrirhugaða uppsögn á leikskólaþjónustu þegar liðnir eru amk 110 dagar frá gjalddaga reiknings.

Ekkert barn hefur verið svipt leikskólaþjónustu undanfarin misseri þegar foreldrar hafa sótt um aðstoð frá velferðarsviði borgarinnar samkvæmt verklagsreglunum frá 2013. Á fyrstu 6 mánuðum 2020 hafa foreldrar um 200 barna fengið aðstoð vegna greiðslu leikskólagjalda. 

Á tímabilinu janúar 2019 til ágúst 2020 hafa 26 börn hætt eftir að forráðamenn þeirra fengu tilkynningu um uppsögn vegna vanskila. 

  • 10 þeirra hættu þar sem þau voru að hefja grunnskólagöngu
  • 3 fluttu frá Reykjavík áður eða um svipað leyti og plássi var sagt upp
  • Í tilviki 13 barna hafa foreldrar ekki óskað eftir aðkomu velferðarsviðs eða ástæða uppsagnar er óþekkt.

Mikilvægt er að allir foreldrar séu upplýstir um grunnþjónustu borgarinnar og þau úrræði sem eru í boði til að mæta fjárhagslegum erfiðleikum eða félagslegri stöðu. Núverandi verklag verður yfirfarið til að tryggja það. Grundvallarmarkmið borgarinnar er að öll börn eiga rétt á þeim tækifærum og þeirri menntun sem leikskólar Reykjavíkur hafa upp á að bjóða. Það er sú sýn sem býr að baki aðgerðaáætluninni Brúum bilið þar sem fjölgað verður leikskólarýmum um allt að 750 um alla borg svo hægt verði innan fárra ára að bjóða öllum börnum frá 12 mánaða aldri pláss í leikskóla.