Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta á húsnæði leikskólans Hálsaskógur/Borg. Áætlaður kostnaður er 550 milljónir króna og stefnt að því að framkvæmdum verði lokið á haustmánuðum 2025.
Breytingar til að mæta kröfum um leikskólastarf
Leikskólinn Hálsaskógur/Borg hefur frá upphafi árs 2023 verið tímabundið staðsettur í Ævintýraborg Vogabyggð. Frá þeim tíma hefur verið unnið við greiningar- og undirbúningsvinnu og búið er að fjarlægja þá byggingarhluti sem reyndust vera skemmdir og þarfnast endurnýjunar. Auk viðgerða á húsnæðinu verða einnig gerðar á því breytingar til að mæta kröfum um leikskólastarf. Verkefnið er hluti af endurbóta- og viðhaldsátaki í leik- og grunnskólum Reykjavíkur.