Ekki skal leggja bíl við sorpgáma

Bílastæðasjóður Samgöngur

Gámar

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í dag að innan Reykjavíkurborgar megi ekki leggja ökutæki að hluta eða í heild fyrir framan djúpgáma eða grenndargáma. Stöðva má bíl til að losa efni í gámana þar sem aðstæður bjóða upp á slíkt án truflunar á umferð.

Stöðubann ekki merkt sérstaklega

Hvorki er talið æskilegt né nauðsynlegt að merkja sérstakt stöðubann við hvern gám, heldur að æskilegra sé að mæla fyrir um almennt bann við því að leggja við við djúp- og grenndargáma innan sveitarfélagsins, sambærilegu lögmæltum stöðubönnum við innkeyrslur og við vatnshana slökkviliðs.

Um er að ræða stöðubann sem ekki er bundið við ákveðinn vegarkafla, í samræmi við a. lið 1. mgr. sbr. 4. mgr. 84. gr. umferðarlaga. Gjaldheimild vegna brota á slíku banni er að finna í d. lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga. Það þýðir að Bílastæðasjóður og lögreglan geta lagt gjald á þá sem leggja við gámana. Bannið tekur gildi með auglýsingu samþykktarinnar í stjórnartíðindum og á vefsíðu borgarinnar.

Sífellt fleiri grenndargámar neðanjarðar

Djúpgámur er neðanjarðar sorpgeymsla þar sem sá hluti gámsins sem úrgangur safnast fyrir í er neðanjarðar, en á yfirborði er lúga sem notendur nota til að losa sig við úrgang. Grenndargámur sem getur einnig verið djúpgámur, er fyrir flokkaðan úrgang sem ætlaður er til notkunar fyrir almenning. 

Á síðustu árum hefur neðanjarðar sorpgámum, þ.e. djúpgámum, og miðlægum móttökustöðvum einfalds úrgangs, þ.e. grenndargámum, fjölgað talsvert innan borgarmarka Reykjavíkur og gert er ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram. Nauðsynlegt er að tryggja aðgengi sorphirðubíla að djúp- og grenndargámunum svo að unnt sé að tæma þá.