Ekkert velsældarsamfélag án öflugs velferðarkerfis
Fjallað var um velsæld á Velferðarkaffi síðastliðinn föstudag. Velferðarráð Reykjavíkurborgar heldur Velferðarkaffi með reglubundnum hætti en þeir fundir eru opnir öllu áhugafólki um velferðarmál. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, stýrði fundinum og talaði meðal annars um mikilvægi þess að mæla, fylgjast með og fylgja eftir áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar eru og hafa áhrif á velsæld fólksins í borginni.
Í velsældarhagkerfi hafa skýr markmið um hagsæld og lífsgæði almennings áhrif á áherslur og forgangsröðun stjórnvalda við ákvarðanatöku og áætlanagerð. „Það er alveg skýrt hver vilji almennings er. Íslendingar almennt vilja sterkt og jafnt samfélag.“ Þetta sagði Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, meðal annars í sínu erindi á Velferðarkaffi. Hún hefur meðal annars skoðað velsæld út frá heilsu og ójöfnuði. Sigrún sagði ákveðin teikn á lofti um að ójöfnuður sé að aukast hér á landi og því sé mikilvægt að þau sem móta stefnuna spyrji sig hvort þau séu að vinna að því að búa til samfélag þar sem þessi gildi endurspeglast. „Stóra spurningin sem við viljum velta fyrir okkur er hvers konar samfélag við erum að búa til. Erum við að búa til samfélag velsældar?“
Móta verkfæri fyrir sveitarfélögin
Innan Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur velsæld verið til til umræðu og sagði Svala Hreinsdóttir, sérfræðingur hjá Sambandinu, frá þeirri vinnu í sínu erindi. Hún sagði meðal annars frá því að í starfsáætlun Sambandsins fyrir árið 2024 sé sérstaklega talað um velsæld og tilgreind verkefni sem stuðla að henni. Markmiðið sé að Sambandið geti aðstoðað sveitarfélög við að meta hvernig þeirra velsældarmælikvarðar standa. Í bígerð sé að móta verkfæri sem nýtist í þeirri vinnu.
Velsældin í Reykjavík
Óskar Dýrmundur Ólafsson ræddi velsæld út frá sjónarhóli Reykjavíkurborgar og velferðarþjónustu borgarinnar en hann er framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar, einnar af fjórum miðstöðvum í Reykjavík þaðan sem velferðar- og frístundaþjónusta er veitt. Óskar lýsti þeirri skoðun að hverfin í borginni gegni mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að skapa og viðhalda velsældarsamfélagi, í sístækkandi borgarsamfélögum nútímans. Í nærsamfélagi íbúanna, væru mörg tækifæri til að auðvelda samspil samfélags, efnahags og umhverfis.
Kallaði eftir auknu samtali
Að lokum talaði Elva Dögg H. Gunnarsdóttir uppistandari um velsæld út frá sjónarhóli notanda velferðarþjónustu. Hún beindi athyglinni að orðanotkun og lýsti því hvernig sum orð eru til þess fallin að setja fólk niður, þar sem þau hafi neikvæða skírskotun og slæm áhrif á sjálfsmynd fólks. Þá benti hún á að getuhyggja (able-ism) sé sterk í íslensku samfélagi. Það sé öllum sem verða fyrir henni ljóst, þó þau sem ekki verða fyrir henni verði hennar ekki endilega vör. „Ég er mjög ánægð með að hafa verið beðin um að tala hér í dag og mig langar að kalla eftir meira samtali við fólk í minni stöðu,“ sagði Elva. Þá varpaði hún að lokum fram hugleiðingum um raunverulegan vilja íslensks almennings til að skapa jafnt samfélag: „Allir vilja hafa jöfnuð í skoðanakönnunum en um leið og þeir þurfa að borga aðeins meira, til að fólk hafi það aðeins jafnara, hætta þeir að vera jafn hrifnir af jöfnuði.“