Einar Þorsteinsson tekur við sem borgarstjóri

Stjórnsýsla

Dagur B. Eggertsson afhenti Einari Þorsteinssyni lyklavöldin að skrifstofu borgarstjóra.
Dagur B. Eggertsson afhendir Einari Þorsteinssyni lyklana að borgarstjóraskrifstofunni.

Borgarstjórn kaus í dag Einar Þorsteinsson borgarstjóra. Dagur B. Eggertsson afhenti Einari lyklavöldin að borgarstjóraskrifstofunni að borgarstjórnarfundi loknum. 

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn, hóf í dag störf sem borgarstjóri Reykjavíkur. Einar tekur við embættinu af Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, en í gær hafði Dagur gegnt embættinu samfellt í 3500 daga. Áður var hann borgarstjóri í hundrað daga árið 2008. 

Frá fundi borgarstjórnar þar sem Einar Þorsteinsson var kosinn borgarstjóri.

Frá fundi borgarstjórnar í dag.

Dagur var í dag kosinn formaður borgarráðs og tekur við því hlutverki af Einari en þessar breytingar á stjórnun borgarinnar eru samkvæmt samkomulagi meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn.  

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var í dag kjörin í borgarráð og tekur við af Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Þá var kosið um varafulltrúa í borgarráði sem nú eru Heiða Björg og Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, í stað Skúla Helgasonar, Samfylkingunni og Árelíu Eydísar.