Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti Græna planið í Evrópuráðinu
Einar Þorsteinsson, borgarstjórinn í Reykjavík, ávarpaði sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins sem fram fór í Strassborg í síðustu viku þar sem fjallað var um umhverfismál.
Borgarstjóri var sérstakur gestur þingsins og flutti erindi um Græna planið, sem er framtíðarsýn borgarinnar til ársins 2030, með áherslu á umhverfi, efnahag og samfélag.
Einar sagði í ræðu sinni að Græna planið væri ekki einungis stefnuskrá Reykjavíkur, heldur fæli það í sér óbilandi skuldbindingu borgarinnar í baráttunni við hamfarahlýnun og verndun á umhverfi okkar, og að með því vildum við verða fyrirmynd annarra borga:
„Græna planið tengir saman allar lykilstefnur og áætlanir borgarinnar þvert á svið, og er leiðarljós okkar um heilbrigðara, grænna og jafnara samfélag sem býður upp á góða þjónustu fyrir íbúa og öflugt atvinnulíf án þess að ganga á náttúruauðlindir,“ sagði Einar.
„Ég er sannfærður um að með þessari áherslu á loftslagsmálin í heildarstefnu okkar, grænan hagvöxt, þjónustu og velferð, munum við bæta heilsu íbúanna og lífsgæði þeirra í leiðinni. Það er Græna planið í hnotskurn.“