Eftirlitseiningar Reykjavíkurborgar sameinaðar

Stjórnsýsla

""

Starfsemi umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa færist til Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Borgarráð samþykkti í lok febrúar að sameina eftirlitseiningarnar með það að markmið að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í samþykktinni fólst að sameina ætti starfsemi umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa undir stjórn og ábyrgð innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar.

Innri endurskoðandi lagði fram áætlun um sameinaða starfsemi í borgarráði 11. júní sl. þar sem kemur m.a. fram að staða persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar verði flutt frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til innri endurskoðanda. Ennfremur að embætti umboðsmanns borgarbúa verði fært undir innri endurskoðanda. Borgarráð samþykkti áætlunina og hafa eftirlitseiningar borgarinnar nú verið sameinaðar á einum stað frá og með 1. júlí sl..

Innri endurskoðanda var falið að ganga frá breytingum á störfum og innleiða skipulag í samræmi við samþykkta áætlun sem fól í sér stofnun tveggja fagsviða innan Innri endurskoðunar; Ráðgjöf og Innri endurskoðun.

Dagbjört Hákonardóttir verður fagstjóri ráðgjafar en hún hefur starfað sem persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar síðan 2018 í samræmi við nýja persónuverndarlöggjöf. Undir fagsvið ráðgjafar falla verkefni persónuverndar og verkefni sem umboðsmaður borgarbúa hafði áður með höndum. Ingi B. Poulsen sem var umboðsmaður borgarbúa hefur látið af störfum.

Anna Margrét Jóhannesdóttir verður fagstjóri innri endurskoðunar og staðgengill innri endurskoðanda. Hún hefur starfað hjá innri endurskoðun síðan 2004 og sem verkefnastjóri úttekta og staðgengill innri endurskoðanda síðan 2010. Undir fagsvið innri endurskoðunar falla úttektir á innra eftirliti, áhættustýringu og stjórnarháttum samkvæmt innri endurskoðunaráætlun auk frumkvæðisverkefna.

Hallur Símonarson er innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar. Hann mun hafa áætlanagerð með höndum, eftirfylgni með verkefnastýringu, fjármál embættisins, mannauðsmál og mannaforráð.  Þá hefur hann umsjón með uppljóstrunargátt innri endurskoðunar. Til stendur að efla hana og kynna rækilega en lög um vernd uppljóstrara taka gildi 1. janúar 2021. 

Í framhaldi af sameiningunni verða vefsvæði innri endurskoðunar og umboðsmanns borgarbúa sameinuð. 

Hægt er að hafa samband við innri endurskoðanda á heimasíðu Reykjavíkurborgar.  Þá er hægt að senda inn erindi og fá ráðgjöf á netfangið umbodsmadur@reykjavik.is. Erindi tengd persónuverndafulltrúa er best að senda á netfangið personuverndarfulltrui@reykjavik.is.

Áætlun um sameiningu eftirlitseininga