Deiliskipulag samþykkt fyrir brú yfir Fossvog

Samgöngur Skipulagsmál

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu að deiliskipulagi vegna brúar yfir Fossvog.

Tillagan gerir ráð fyrir gerð götu fyrir almenningssamgöngur, hjóla- og göngustíg sem tengir saman Reykjavík og Kópavog með 270 metra langri brú yfir Fossvog.

Gert er ráð fyrir að  þversnið brúarinnar verði 15 metra breitt  og að Borgarlínan og strætisvagnar aki um hana auk þess sem á brúnni verði hjólastígur og göngustígur.

Frumkostnaðaráætlun fyrir 270 metra langa og  15 metra breiða brú er 2,4 milljarðar kr. samkvæmt skýrslu Eflu verkfræðistofu.

Brúin verður vistvæn samgöngubót fyrir íbúa Kópavogs og Reykjavíkur og hafa sveitarfélögin tvö unnið að deiliskipulaginu í sameiningu með aðkomu Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir að brúin liggi frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar, vestan Nauthólsvíkur, yfir á norðausturhluta Kársnestáar en þar eru 340 metrar á milli bakka. Landfyllingar verða gerðar báðum megin við sitt hvorn brúarendann.

Í tillögum starfshóps Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá nóvember 2018 er gert ráð fyrir að innviðir fyrir þennan hluta Borgarlínu, frá Hamraborg um miðborgina og upp á Ártúnshöfða, verði byggðir á tímabilinu 2021-2023.

Hér er tengill á kynningu starfshópsins.