Celebs semja lag Barnamenningarhátíðar í ár

Celebs hljómsveit

Lag Barnamenningarhátíðar í ár verður samið af partýpinnunum í hljómsveitinni Celebs!

Hljómsveitina Celebs skipa systkinin Valgeir Skorri, Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís! Þau hafa öll unnið Músíktilraunir, koma frá Suðureyri, eru algjörir húmoristar og brenna fyrir barnamenningu. Við erum því gífurlega þakklát að fá þau til samstarfs við okkur. 

Lagið í ár mun fjalla um lýðræði í tilefni að íslenska lýðveldið á afmæli 2024. Nýlega fengu 4. bekkir í borginni það verkefni að svara allskonar spurningum um lýðræði í víðum skilningi. Texti lagsins verður byggður á svörum barnanna í 4. bekkjum og verður frumflutt af Celebs í Eldborgarsal Hörpu 23. apríl.