„Búum öldruðum áhugavert ævikvöld“

Fólk hlustar á fyrirlestur á velferðarkaffi.

Það var fullt hús á velferðarkaffi í morgun, opnum fundi velferðarráðs, þar sem málefni eldra fólks í Reykjavík voru til umræðu. Þar var fjallað þá fjölbreyttu þjónustu sem velferðarsvið veitir eldra fólki í borginni, um nýja og umfangsmikla könnun sem gerð var meðal notenda heimahjúkrunar og loks fengu viðstaddir innsýn í félagsstarf aldraðra í Grafarvogi.  

Velferðarsvið snertir á lífi um 3000 eldri borgara í Reykjavík á hverjum einasta degi í gegnum þá fjölbreyttu velferðarþjónustu sem veitt er. Þetta kom fram í erindi Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, skrifstofustjóra öldrunarmála á velferðarsviði, á velferðarkaffi í morgun. Hún fór vítt og breitt yfir þjónustu sviðsins og fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að fólki sé mætt þar sem það er statt hverju sinni og þess að þjónustan þróist í samræmi við það sem er að gerast í samfélaginu á hverjum tíma. Þá benti hún á að stór hópur fólks á fimmtung ævi sinnar eftir 67 ára. Í því samhengi vitnaði hún í orð sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lét falla nýverið: „Búum öldruðum áhugavert ævikvöld.“

 

Tók dæmi úr lífi föður síns

Samþætt heimaþjónusta er mikilvægur hluti þeirrar þjónustu sem velferðarsvið veitir en undir hana fellur bæði heimastuðningur og heimahjúkrun. Guðbjörg Theresía Einarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu öldrunarmála á velferðarsviði, sagði frá þeirri þjónustu en í langflestum tilfellum er það eldra fólk sem fær hana. Heimahjúkrun er fyrir fólk sem þarf aðstoð reglulega heilbrigðisþjónustu inn á heimili sitt. Heimastuðningur er hins vegar fyrir fólk sem býr heima hjá sér en þarf stuðning vegna veikinda, álags, skertrar getu, fjölskylduaðstæðna eða annarra hluta.

Þegar Guðbjörg Theresía lýsti því hvernig samþætt heimaþjónusta virkar í framkvæmd nefndi hún dæmi úr eigin lífi, nefnilega reynslu pabba síns af því að fá samþætta heimaþjónustu. Hann hafi verið tregur til að þiggja þjónustuna í fyrstu en eftir að hún hafi komist á sé hann sáttur og fjölskyldan öll mjög ánægð.

Ánægja meðal notenda heimahjúkrunar

Á velferðarkaffi mætti einnig Theodór Blöndal en hann sagði frá afar fjölsóttu og fjölbreyttu félagsstarfi Korpúlfa – félags eldri borgara í Grafarvogi. Sýndi hann viðstöddum meðal annars nýja og glæsilega heimasíðu Korpúlfa. Á henni má lesa margt fróðlegt og þar má sjá dagskrá Korpúlfa, sem stútfull er af áhugaverðum viðburðum.  

Að lokum fjallaði Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, sem fer fyrir teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, um nýlega og umfangsmikla símakönnun sem gerð var meðal notenda hiemahjúkrunar. Könnunin leiddi í ljós að mikil ánægja er meðal fólks sem fær heimahjúkrun með þá þjónustu sem það fær inni á heimilum sínum. Könnunina má skoða hér fyrir neðan: