Flestir notendur heimaþjónustu segja viðmót starfsfólks gott

Notendur heimahjúkrunar eru upp til hópa ánægðir með viðmót starfsfólks.

Mikil ánægja er meðal fólks sem fær heimahjúkrun með þá þjónustu sem það fær inni á heimilum sínum. Þetta sýnir nýleg könnun en markmið hennar var að meta gæði þjónustu heimahjúkrunar og kanna hug notenda til hennar.

Heimahjúkrun er hluti af samþættri heimaþjónustu sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar veitir til þess að gera fólki kleift að búa eigin heimili þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi. Reykjavíkurborg sér um rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík og hefur gert það frá árinu 2009. Nýlega var gerð könnun meðal notenda þjónustunnar. Hún var framkvæmd í gegnum síma en lagður var staðlaður spurningalisti fyrir þátttakendur. Könnunin var nafnlaus og ekki var hægt að rekja einstaka svör til þátttakenda. Það var teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði sem vann könnunina í samstarfi við skrifstofu öldrunarmála.

Úr könnuninni má meðal annars lesa að 95% notenda upplifa að starfsfólk sýni því vingjarnlegt viðmót, 95% upplifa að starfsfólk komi fram við það af virðingu og 93% að starfsfólk heimahjúkrunar hlusti á það. Þá segjast 88% aðspurðra í heildina litið ánægð með þjónustuna.

 

Kannanir markvisst nýttar til að þróa þjónustu

Á velferðarsviði er unnið út frá aðgerðaáætlun velferðarstefnunnar sem samþykkt var í fyrrasumar. Samkvæmt henni á að efla gagnadrifna ákvarðanatöku á sviðinu. Niðurstöður kannana sem lagðar eru fyrir notendur eru því markvisst nýttar til að þróa þjónustu við borgarbúa. Umbætur á heimahjúkrun með stafrænum breytingum, sjálfvirknivæðingu, nýsköpun og þróun er ætíð í forgrunni og  áhersla lögð á gæði, öryggi og árangur.

Það er jákvætt og hvetjandi að sjá að fólk er almennt ánægt með þjónustuna og starfsfólkið,  sérstaklega að því finnst auðvelt að ná í það. Einnig er ánægjulegt að fleiri geta hugsað sér skjáheimsóknir þó það sé ennþá þannig að fólki finnst ennþá best að nota símann, enda eru flestir svarendur fólk á áttræðis- og níræðisaldri

Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Markmið heimahjúkrunar er að styðja við aldraða og gera þeim kleift að búa heima þrátt fyrir veikindi eða færnisskerðingu. Lögð er áhersla á að lágmarka komur þeirra á bráðamóttökuna þannig að fólk með bráð einkenni eða langvinna sjúkdóma fái sérhæfða hjúkrun heim, meðal annars með sérhæfðu hreyfanlegu öldrunarteymi.

Teymisvinna, sérhæfing og innleiðing velferðartækni, til dæmis skjáheimsókna, er nýtt á öllum stigum þjónustunnar í þeim tilgangi að veita persónumiðaða þjónustu og auka sjálfstæði fólks.