Búið að ráða í meira en 97% stöðugilda í leikskólunum

Skóli og frístund

""

Nýjasta yfirlit um stöðu ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar verður til umræðu í borgarstjórn í dag. Staðan í starfsmannamálum er mun betri en á sama tíma og í fyrra. 

Um það bil 40 starfsmenn vantar enn til starfa í 62 leikskóla borgarinnar miðað við grunnstöðugildi á deildum, sérkennslu og stjórnun. Það er betri staða en í ágústlok þegar óráðið var í tæp sextíu stöðugildi. Á sama tíma í fyrra var staðan í ráðningarmálum leikskólanna talsvert verri en þá átti eftir að ráða í um 96 stöðugildi. Staðan í starfsmannamálum veldur því að óvíst er um inntöku um 60 barna af þeim 1.400 sem fengu boð um vistun nú í haust. 

Í 36 grunnskólum borgarinnar er búið að ráða í 99% % allra stöðugilda, en enn vantar u.þ.b.16 starfsmenn. Á sama tíma í fyrra vantaði 15 starfsmenn í grunnskólana. 

Enn er óráðið í 64 stöðugildi hjá 39 frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðum sem jafngildir 128 starfsmönnum í hálft starf. Búið er að ráða í 82,1% stöðugilda. Á sama tíma í fyrra vantaði 173 starfsmenn í hálft starf. 532 börn eru nú á biðlista inn á frístundaheimili, en á sama tíma í fyrra voru þau 834. 

Sjá minnisblað um stöðuna í ráðningarmálum. 

Sjá frétt um miðlæga afleysingastofu sem tekin er til starfa og miðar að auknum fjölbreytileika í ráðningum, m.a. hjá leikskólunum.