Unnið er að því í sumar að innleiða nýtt og samræmt flokkunarkerfi úrgangs í Reykavíkurborg í samvinnu við nágrannasveitarfélögin. Búið er að dreifa nýjum tunnum, körfum og pokum til rúmlega 14.500 heimila í borginni. Telst það vera rúmlega fjórðungur þeirra 55.000 heimila í borginni sem Sorphirða Reykjavíkur þjónustar. Alls er dreift tunnum til um 650 heimila á dag.
Dreifing á ílátum í Reykjavíkurborg hófst á Kjalarnesi í byrjun maí. Dreifingu er lokið þar sem og í Grafarholti, Úlfarsárdal, Grafarvogi og Árbæ. Dreifing stendur núna yfir í Breiðholti og er áformað að henni ljúki þar í annarri viku júlí. Þá verður búið að dreifa til þriðjungs heimila í borginni og dreifingu austan Elliðaáa þar með lokið.
Umfangsmikið umhverfismál
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þetta er umfangsmikið umhverfismál en með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent.
Margar hendur hafa komið að málum þegar tunnuskipti við heimili fara fram enda um eitt stærsta umbótaverkefni sem sorphirða Reykjavíkurborgar hefur ráðist í. Undirbúningur verkefnisins hefur verið í fullum gangi síðan 2021 og hafa fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu unnið í sameiningu ásamt Sorpu að undirbúningi þess.
Tæknin nýtt í undirbúningnum
Starfsfólk á skrifstofu sorphirðunnar ásamt sérfræðingum hjá gagnateymi á þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar hafa útbúið gagnamódel sem áætlar tunnubreytingar við hvert hús í borginni, sem tekur miða af því hvaða tunnur eru þar fyrir og fjölda íbúða og íbúa. Yfirfara þarf alla þá lista og leiðrétta og taka tillit til sérstakra aðstæðna til dæmis þar sem nágrannar deila tunnum eða hafa sent inn óskir um vissar tunnusamsetningar.
Mörg handtök við að setja saman tunnur
Um 20 manns vinna í sumar við sjálf tunnuskiptin, enda um mörg handtök að ræða í stóru verkefni.
- Setja þarf öxla og hjól undir allar nýjar tunnur og festa þil í tvískiptar tunnur og setja á þær tvískipt lok.
- Allar tunnur eru merktar með flokkunarmerkingum.
- Tunnum er raðað í sendibíla frá dreifingarlistum fyrir allar götur og götur eru oft sameinaðar til að fylla í bíla.
- Alls eru þrír flokkar að dreifa tunnum, einn flokkur er í að dreifa ílátum og bréfpokum til heimila og einn flokkur til viðbótar sér um að endurmerkja eldri tunnur við hús.
Starfsfólk sorphirðunnar og þjónustuvers Reykjavíkurborgar vinna saman að því að svara erindum íbúa tengdum verkefninu. Talsvert er um spurningar og ábendingar vegna verkefnisins og einnig beiðnir um breytingu eða kvartanir vegna dreifingarinnar. Mikið álag hefur verið á starfsfólki, sem svarar erindum eins hratt og kostur er.
Allar helstu upplýsingar um verkefnið og svör við algengustu spurningum er að finna á reykjavik.is/flokkum.
Áætlað er að í sumar verði dreift rúmlega 8.000 tunnum undir pappír og plast til viðbótar við þær tunnur sem voru í borginni, auk 6.000 nýrra íláta undir söfnun á matarleifum. Ný ílát, tvískiptar tunnur, verða við um 15.000 heimili í sérbýli í borginni.
Breytt áætlun – Vesturbær og miðborg næst
Nú hefur verið ákveðið að breyta dreifingaráætlun borgarinnar miðað við þróun verkefnisins. Ákveðið er að þegar dreifingu í Breiðholti lýkur, verði farið í dreifingu í Vesturbæ og í miðborg í júlí og fram yfir verslunarmannahelgi. Þessar breytingar eru gerðar til að nýta tímann þegar minnst umferð er í borginni vegna sumarfría og áður en kennsla í skólum hefst. Af þessum sökum verður dreift í Hlíðar og Laugardal í ágúst og dreifingu lýkur í Háaleiti- Bústöðum í september.