Breyting á deiliskipulagi við Sundlaugartúnið samþykkt

Skipulagsmál

Sundlaugartún

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar við Sundlaugartúnið var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í dag, 25. janúar, og send í borgarráð til staðfestingar.

Endurheimt almenningsrýmis

Fyrirkomulagið sem hefur verið til staðar undanfarna áratugi líður undir lok með breytingunni og almenningsrýmið eykst. Borgarlandið verður þá aftur aðgengilegt eins og gert var ráð fyrir í eldra deiliskipulagi.

Eldri girðingar, sem eru allt að 14 metrum inn á borgarlandi, verða fjarlægðar af starfsfólki Reykjavíkurborgar. Lóðareigendur við Einimel 18, 24 og 26 ætla aftur á móti að kaupa stika af borgarlandi og gera samning við borgaryfirvöld um það. Tillagan var í auglýsingu frá 2. mars 2022 til og með 13. apríl 2022.

Uppfæra þarf lóðarblöð til samræmis við breytt deiliskipulag en með þessari breytingu þá stækkar almenningssvæðið umtalsvert miðað við það sem verið hefur síðustu áratugi. Rými lóðanna dregst saman. Heimiluð er breyting lóða nr. 18, 24 og 26 við Einimel með því að færa lóðarmörk út um allt að 3,1 metra. Jafnframt er heimilað að stækka lóð nr. 26 lítillega út til norðurs í átt að gangstétt í borgarlandi. Lóðir nr. 20 og 22 gerðu ekki samning við Reykjavíkurborg um breytingar á lóðum sínum.

Samantekt á svörum við athugasemdum

Tuttugu og einn sendi inn athugasemd við tillöguna á auglýsingatíma og í umsögn skipulagsfulltrúa stendur meðal annars að forsendur þess að farið var í deiliskipulagsbreytingu var sú að girðingar, sem hafa staðið í áratugi í borgarlandi við Einimel 18-26, verði fjarlægðar.

„Tillagan gengur út á að heimila fyrrgreindum lóðarhöfum að stækka lóðir sínar um allt að 3,1 metra með því að færa gildandi lóðarmörk í þessu deiliskipulagi. Samhliða verður girðing sem stendur lengra inn á borgarlandið, eða sem nemur allt að 14 metrum, fjarlægð. Lóðarhöfum er á eigin kostnað heimilt að setja upp nýja girðingu á nýjum lóðarmörkum eftir atvikum í samráði og samvinnu við borgina.“

Samþykkt umhverfis – og skipulagsráðs er nú send í borgarráð.