Spurt og svarað um Sundlaugartún
Töluverð umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Spurningar hafa vaknað um tilurð tillögunnar og því hefur m.a. verið haldið fram að Reykjavíkurborg ætli að gefa frá sér borgarland á þessum stað. Með því að fjarlægja þessa girðingu þá breytist túnið og það svæði sem er aðgengilegt stækkar umtalsvert fyrir almenning miðað við það sem verið hefur síðustu áratugi. Hér er varpað fram nokkrum spurningum og svör gefin en fólk eindregið hvatt til að senda inn athugasemdir og spurningar sem teknar verða fyrir eftir að auglýsingatíma lýkur og nákvæm svör gefin hjá skipulagsfulltrúa.
Á fundi skipulags- og samgönguráðs og borgarráðs Reykjavíkur í febrúar 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Í breytingunni felst að lóðarmörk við Einimel 18-26 eru færð út sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur.
Tillöguna má nálgast á vef Reykjavíkurborgar og á skjá og tölvu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:30 – 16:00 frá 25. febrúar 2022 til og með 13. apríl 2022. „Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 13. apríl 2022. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti," segir í auglýsingu.
Hver er forsagan?
Girðing á þessu svæði fyrr á árum tilheyrði býlinu Víðimýri við Kaplaskjólsveg. Virðist hún hafa verið á nákvæmlega sama stað og núverandi girðing, ef marka má loftmyndir úr Borgarvefsjá frá árinu 1971. Sennilega var girðingin notuð fyrir búfénað. Árið 1959 afsalar Sigfús Blöndahl erfðafestulandinu Kaplaskjólsmýri VII, til bæjarsjóðs Reykjavíkur og er í staðinn lofað 2070 fm leigulóð með húsinu Víðimýri. Þeir 2070 fm verða síðar þrjár 690 fm lóðir, Einimelur 22, 24, 26. Húsið Víðimýri stóð lengi þar sem nú er Einimelur 22 og 24 og girðingin sem nær út á túnið er á þeim stað þar sem girðingin í kringum Víðimýri var. Sú girðing virðist hafa staðið áfram. Árið 1988 var gerður lóðarleigusamningur um Einimel 26 til 75 ára. Árið 1996 er lóð, nr. 22 og 24, ánafnað Krabbameinsfélagi Íslands og byggjast þær upp eftir það. Samkvæmt munnlegum heimildum gerði lóðarhafi á Einimel 26 samkomulag um að „taka land í fóstur“ og ræktaði gróður og nýtti land út fyrir lóðamörk. Ekki hafa fundist skriflegar heimildir um þetta samkomulag.
Hvers vegna er verið að leggja til breytingar á deiliskipulaginu?
Reykjavíkurborg hefur reglulega á undanförnum árum haldið til haga sjónarmiðum sínum varðandi túnið og lagt fram kröfur um að girðingin sem þar er víki. Í nýlegum samskiptum við lóðarhafa kom fram sú ósk að heimilt yrði færa lóðarmörk þannig að þau myndu ekki skera í gegnum gróður sem byggður hefur verið upp á liðnum árum. Þetta getur verið góð möguleg lausn, að mati borgarinnar, sem raskar ekki nýtingarmöguleikum á túninu. Lóðabreytingar þær sem lóðarhafar óskuðu eftir kalla hins vegar á deiliskipulagsbreytingu og er tillagan því nú í auglýsingu.
Hver er tillagan?
Tillagan snýst um að gerð verði breyting á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar þar sem heimiluð er stækkun lóða nr. 18 til 26 við Einimel með því að færa lóðarmörk út um allt að 3,1 metra. Samhliða verður girðing sem stendur lengra inn á borgarlandið fjarlægð og eru lóðarhafar og Reykjavíkurborg sammála um þá niðurstöðu og mun borgin taka girðinguna niður. Lóðarhöfum er á á eigin kostnað heimilt að setja upp nýja girðingu á lóðarmörkum eftir atvikum í samráði og samvinnu við borgina.
Hvernig breytist túnið ef breytingarnar ná fram að ganga?
Ef tillagan er samþykkt verður gerð breyting á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar þar sem heimiluð er stækkun lóða nr. 18-26 við Einimel með því að færa lóðarmörk út um allt að 3,1 metra eins og áður segir. Samhliða verður girðing sem stendur lengra inn á borgarlandið fjarlægð og svæðið opnað fyrir almenningi. Með því að fjarlægja þessa girðingu þá breytist túnið og það svæði sem er aðgengilegt stækkar umtalsvert fyrir almenning miðað við það sem verið hefur síðustu áratugi. Stærðarbreyting lóða kemur fram á skýringaruppdrætti. Jafnframt verður heimilað samkvæmt tillögu að stækka lóð nr. 26 lítillega út til norðurs í átt að gangstétt í borgarlandi, nánari afmörkun þess verður ákveðin við gerð uppfærðs lóðarblaðs. Uppfæra þarf lóðarblöð til samræmis við breytt deiliskipulag.
Stendur til að gefa fólki land í eigu borgarinnar?
Nei. Verði deiliskipulagsbreytingin samþykkt þarf að breyta lóðarleigusamningi fyrir lóð nr. 26 og í tilviki 22 og 24 sem eru eignarlóðir þyrfti að skoða hvort gerður yrði lóðarleigusamningur eða þeim seld viðbótin. Einnig þyrfti að skoða lóðamörk Einimels 18 og 20.
Hefði ekki verið eðlilegt að láta reyna á málið í dómstólum?
Nei. Borgin telur ljóst hvar lóðamörkin eru í dag. Eðlilegt er talið að lenda málinu þannig að allir geti unað sáttir við það. Það eru mörg fordæmi fyrir því að lóðamörkum sé breytt. Jafnræðis- og sanngirnissjónarmið mæla með því að lóðarhafar fái að setja fram þessa tillögu. Hún er svo sett fram sem tillaga að deiliskipulagi þar sem allir geta sent inn athugasemdir, hægt að samþykkja tillögu eða hafna.
Hvar er málið statt?
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hefur verið auglýst og óskað eftir athugasemdum. Tillöguna má nálgast á skjá og tölvu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:30 – 16:00 frá 25. febrúar 2022 til og með 8. apríl 2022. Einnig má sjá tillöguna á vefnum, www.reykjavik.is, skipulag í kynningu. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 8. apríl 2022.
Skapast fordæmi með þessu?
Nei, svara þarf eða ganga þarf til samninga í hverju tilfelli ef lóðarhafar óska eftir breytingum.
Hvers vegna er girðing sem íbúar við Einimel 18 og 20 reistu á borgarlandinu fyrir 12-15 árum fest í sessi?
Svar sem lóðarhafi hefur gefið opinberlega: „Sú sem var fyrir var ónýt og lóðarhafar á Einimel 18 og 20 létu reisa nýja og færðu hana út fyrir trén. Ekkert mál að fjarlægja girðinguna og óska eftir nýrri frá borginni hinu megin við trén.“ Lóðarhafar 22-26 óskuðu nú eftir tiltekinni breytingu og var hún í samræmi við staðsetningu þessarar girðingar.
Er til samningur milli Reykjavíkurborgar og lóðarhafa á Einimel?
Samningur var ekki gerður. Ekkert samkomulag hefur verið gert við lóðarhafa um að niðurstaðan verði sú sem lagt er til í deiliskipulagstillögunni. Lóðarhafar voru fullupplýstir um það að þetta færi í hefðbundið ferli. Samþykkt var í skipulags- og samgönguráði að setja tillöguna í auglýsingar- og samráðsferli til 13. apríl. Allir sem vilja geta sent inn athugasemd. Eftir auglýsingatíma er athugasemdum safnað saman hjá skipulagsfulltrúa, tekin afstaða til þeirra og hvort ástæða sé til að breyta tillögunni.
Hver verður niðurstaðan? Hvað gerist næst?
Engin ákvörðun hefur verið tekin í þessu máli, heldur er tillaga lögð fram sem allir geta komið með athugasemdir við. Eftir það fer málið í vinnslu hjá skipulagsfulltrúa og svo lagt fyrir skipulags- og samgönguráð. Svör við spurningum sem sendar eru á skipulag@reykjavik.is verða gerð þá.
Kynning á tillögunni í íbúaráði Vesturbæjar
Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar kynnti tillöguna í íbúaráði Vesturbæjar miðvikudaginn 16. mars 2022. Hægt er að horfa á kynninguna hér, þetta er fyrsta má á dagskrá.