Börnin uppskera eins og þau sá

Skóli og frístund

Ræktun í bambahúsi Rauðhóls

Börn í leikskólanum Rauðhól eru að uppskera ríkulega þessa dagana því gróðurhús leikskólans er stútfullt af gómsætu grænmeti. Ræktunin hefur verið mikill lærdómur fyrir bæði starfsfólk og börn. Börnunum þótti eðlilega spennandi þegar þau gátu nýlega boðið upp á radísur og kál úr eigin ræktun í hádeginu í leikskólanum.

Lærðu fljótt muninn á illgresi og plöntu

Ingveldur Ævarsdóttir, útikennari í leikskólanum fór af stað með verkefnið með því að sækja um styrk fyrir svokölluðu bambahúsi sem framleidd eru úr IBC tönkum. „Ég hef í rauninni enga reynslu af ræktun. Þetta er reynsla fyrir okkur öll og við erum að prófa okkur áfram,“ segir Ingveldur. Börnin læra hvernig fræ verða að plöntum og fóru ítarlega í það þegar þau létu baunaspírur spíra í glæru glasi og gátu því fylgst vel með ferlinu. Þau læra þó ekki aðeins um hvernig fræ verða að plöntum. „Þau læra líka að bera virðingu fyrir plöntunum, virðing sem vonandi færist yfir á náttúruna. Þau læra að við þurfum að vanda okkur þegar við hugsum um plönturnar og krakkar niður í fjögurra ára eru búin að læra muninn arfa og plöntu,“ segir Ingveldur sem sjálf var hissa hversu fljótt þau hafi lært og að í raun hafi ekkert verið tekið upp í ógáti.

 

Ræktun í bambahúsi Rauðhóls

Helst þarf að passa að plönturnar verði ekki ofvökvaðar

Þó að ræktunni sé að mestu stýrt af starfsfólki hafa börnin líka ákvörðunarvald. „Þau sýna frumkvæði, ákveða sjálf að vökva, sum hafa ákveðið að setja niður ný fræ og þau fá líka að smakka uppskerunna,“ segir Ingveldur og bætir við að helst þurfi að passa upp á að vökvunin fari ekki fram úr hófi. „Þau þurftu að læra að drekkja ekki plöntunum.“ 

Ræktun í bambahúsi Rauðhóls