Rúnar Gunnarsson, ljósmyndari og eftirlaunaþegi, þekkir Reykjavík betur en margur annar og fáir hafa beint linsunni eins oft og lengi að húsum og fólki bæjarins. Rúnar býr í Hlíðahverfi og hefur ákveðna sýn á hverfið;
„Ég hef eiginlega alltaf búið í Vesturbænum, Melunum, Högunum og á Granda, ef frá eru talin nokkur ár sem ég bjó í Hafnarfirði. Þegar aldurinn færðist yfir ákváðum við hjónin að finna góða íbúð sem hentaði okkur á efri árum. Við vildum ekki að börnin þyrftu að standa í þvi að flytja okkur þegar við værum orðin of hrum til að ráða við það sjálf,“ segir Rúnar. Úr varð að þau hjónin fluttu í Bólstaðarhlíð 41-45 þar sem eru íbúðir fyrir aldraða og samfélagshús.
„Þetta er ljómandi fyrirkomulag og við sjáum ekki eftir þessum kaupum. Hér er yndislegt að búa. Allt er innan seilingar og ég get gengið í Kringluna þar sem ég hitti gamla félaga yfir kaffi eða á Kjarvalsstaði eða niður í bæ. Ég þarf ekki að ganga nema 100-150 metra til að ná strætisvagni hvert sem er. Mér finnst ég vera meira miðsvæðis hérna og hér er ekki þessi kaldi Hvalfjarðarstrengur sem er svo oft í Vesturbænum, ekki síst út á Granda. Ef ég á að segja alveg eins og er þá finnst mér ekkert vanta í þessu hverfi. Hér er kyrrð og ró, græn svæði, öll þjónusta og góðar samgöngur.“
En hvað finnst Rúnari um þau áform að setja Miklubraut að hluta í stokk? „Ég set mig ekki inn í skipulag eða umferðamál því það er tímasóun og það á að láta yngra fólkið sjá um það. Borg er heillandi fyrirbæri eða eins og lifandi vera sem fer sínu fram. Hún þróast á eigin forsendum og ekkert hægt að spyrna við því“.
Rúnar, sem er 77 ára gamall, vann í 50 ár hjá Sjónvarpinu. „Ég var með frá byrjun sem var mikið ævintýri. Ég vann m.a. sem kvikmyndatökumaður, dagskrárgerðarmaður og ég var framkvæmdastjóri í nokkur ár og lengst af var ég dagskrárstjóri innlendrar dagskrár. Það gat nú verið meira kvabbið, segir hann og hlær.“ Hann rifjar upp árin hjá RÚV og segir það að mestu góðar minningar en þetta hafi oft verið mikið álag.
Eftir að hann fór á eftirlaun tók hann í smá tíma upp gamalt starf sem bréfberi hjá Póstinum. Hann segir það gott starf með útiveru og hreyfingu. Hann gat líka kippt myndavélinni með og fangað stemninguna hverju sinni. „Sem bréfberi tekur þú sjaldan eða aldrei áhyggjur vinnunnar með þér heim og þetta væri besta starf í heimi ef launin væru hærri“ , segir Rúnar kankvís.
Úr ljósmyndasafni Rúnars Gunnarssonar
Ljósmyndin er helgiathöfn
Rúnar segir að ljósmyndun hafi alltaf verið hans aðalstarf og áhugamál, og hann er sjaldan án myndavélarinnar. „Ég fékk myndavél í fermingargjöf og ég hef verið með ljósmyndadellu síðan. Filmusafnið mitt er gullnáma og ómetanleg heimild og ég á t.d. fjölmargar myndir sem ég tók úr kolakrananum sem var við Austurbakkann. Hann var nokkurs konar kennileiti í borginni frá því hann var reistur 1927 og til ársins 1968 þegar hann var tekinn niður. Með því að príla upp í kranann var hægt að ná loftmyndum af miðborginni. Ég var 18 ára þegar ég var byrjaði að vinna sem ljósmyndari fyrir Alþýðublaðið. Ljósmyndun er mín ástríða eða fyrir mér er hún nánast eins og ritual. Það er einhver helgi yfir augnablikinu sem þú fangar. Ég er svo lánsamur að vera nær áttræður og enn við hestaheilsu svo ég fer daglega á stúfana að mynda borgarlífið.“
Rúnar á 100 þúsund myndir á filmum og um 50 þúsund sem búið er að setja á stafrænt form. Hann hefur reiknað út að til að ná að ganga frá öllu safninu á stafrænt form þurfi hann að verða 102 ára og það er eitthvað sem spyrjanda finnst ekki ólíklegt að hann verði miðað við atorku og útlit.
En hvað er skemmtilegast að mynda? „Fólk, það er engin spurning. Mér finnst mjög skemmtilegt að mynda hverfið mitt, borgina okkar og mannlífið í fjölbreytni borgarlífsins, árstíðanna og á ólíkum tíma dagsins við mismunandi birtu- og veðurskilyrði. Maður er stöðugt að fanga nýtt augnablik sem býr yfir ákveðinni helgi og er einstakt. Það eru töfrarnir.
Þegar ég kveð Rúnar er enn margt órætt, m.a. tónlistarferill Rúnars en hann hefur líka alla tíð spilað í hljómsveitum og þekktust þeirra er líkast til Júpíters. Hann á líka fimm uppkomin börn og átta barnabörn. Og nú steðjar hann úr kaffiteríunni á Kjarvalsstöðum því hann ætlar að freista þess að ná myndum af fólki i slagveðrinu á meðan birtan leyfir.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace