Borgartréð 2012
Jón Gnarr, borgarstjóri, útnefndi 112 ára gamlan Gljávíði sem borgartré við athöfn í garði Hressingarskálans við Austurstræti í dag. Garðurinn við Hressingarskálann er einn þekktasti einkagarður frá lokum nítjándu aldar og stóð við hús Árna Thorsteinssonar landfógeta í Reykjavík frá 1862. Garðurinn var nýttur til skrauts og nokkurra nytja og var jafnan kallaður Landfógetagarðurinn.
Gljávíðirinn sem nú er valinn borgartré 2012 í þessum fornfræga garði fékk Árni að gjöf frá Schierbeck landlækni og var gróðursettur um 1900. Þegar Árni flutti inn í húsið var fyrir kartöflugarður og lítil skilyrði til garðræktunar. Lét hann smám saman grafa gryfjur í garðinn og fyllti þær með mold og áburði og tók verkið allmörg ár. Garðurinn var stór og í honum ræktaði Árni fjölda plantna, sem aldrei fyrr höfðu verið ræktaðar hér á landi. Hinum algengustu garðjurtum og innlendum skrúðplöntum var heldur ekki gleymt.
Garðurinn stóð óbreyttur fram á sjötta áratug síðustu aldar en þá var honum breytt með tilkomu Hressingarskálans. En segja mætti að Reykvíkingar hafi fengið að njóta þessa frumkvöðlastarfs í garðrækt í 150 ár.
Glávíðirinn hefur á þeim 112 árum sem liðin eru séð tímana tvenna og lifað af breytingar á öllu umhverfi sínu. Fyrir nokkrum árum hallaði hann sér út af í miklum stormi og hvílir á styrkum stoðum og hefur náð að skjóta rótum að nýju. Hinir þykku armar jötunsins gamla eru börnum einstakt ánægjuefni við klifurleiki í garðinum. Hann hefur fjóra 30 cm þykka boli og er um 6-7 metra hár en um 8-9 metra langur.
Tréð var valið af Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samstarfi við Reykjavíkurborg