Borgarstjórn fundar í Laugalækjarskóla í dag

Stjórnsýsla

""
Borgarstjórn Reykjavíkur fundar í Laugalækjarskóla í dag. Tilefnið er m.a. vera borgarstjóra í Laugardalnum en hann hefur flutt skrifstofu sína í Laugardalslaug og verður þar þessa viku.
 
Fundir borgarstjórnar fara reglulega fram í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur en þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun hafa aðsetur í Laugardalnum þessa viku var ákveðið að færa fundinn og halda hann í hverfinu. Þetta er í annað sinn sem haldinn er borgarstjórnarfundur í hverfum borgarinnar en síðast var slíkur fundur haldinn í Gerðubergi í Breiðholti. 
 
Frá stofnun bæjarstjórnar árið 1836 hafa fundir bæjar- og borgarstjórnar verið haldnir á sex stöðum, þ.e. í Landsyfirréttarhúsinu Austurstræti 22, í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, í Góðtemplarahúsinu við Vonarstræti, í Eimskipafélagshúsinu við Pósthússtræti, Skúlatúni 2 og Ráðhúsi Reykjavíkur. Tveir sameiginlegir fundir borgarstjórnar með bæjarstjórn Akureyrar hafa einnig verið haldnir á Akureyri.
 
Fundur borgarstjórnar í dag hófst á einnar mínútu þögn til að minnast þeirra sem létust í hryðjuverkaárásununm í París síðastliðinn föstudag.
 
Meðal þess sem er á dagskrá fundarins í dag er m.a. umræða um rýningu á orkugjöldum, tillaga um göngubrú yfir Miklubraut,  húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík, loftslagsmál, sorpflokkun í Reykjavík og fleira.
 
Forseti borgarstjórnar er Sóley Tómasdóttir.
 
Borgarstjórnarfundurinn er öllum opinn eins og vanalega.