Borgarstjórar í kynnisferð um miðborgina

Borgarstjórar höfuðborga Eystrasaltsríkjanna ásamt fylgdarliði

Borgarstjórar höfuðborga Eystrasaltsríkjanna eru í opinberri heimsókn hér á landi og hafa í dag komið víða við í fylgd Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur sem heimsótti einmitt Eystrasaltsríkin í vor. Reykjavík og höfuðborgir Eystrasaltsríkjanna eru vinaborgir og hefur samstarf þeirra verið ríkulegt í gegnum árin á ýmsum sviðum. 

Mārtiņš Staķis, borgarstjóri Riga, Remigijus Šimašius, borgarstjóri Vilnius og Mihhail Kõlvart, borgarstjóri í Tallinn, eru hér á landi í tengslum við opinbera heimsókn forseta Eystrasaltsríkjanna; Eistlands, Lettlands og Litháen. Heimsóknin er í tilefni af því að rúmir þrír áratugir eru liðnir síðan ríkin tóku upp stjórnmálasamband, þann 26. ágúst 1991, eftir að Ísland varð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði ríkjanna á ný eftir fall Sovétríkjanna.

Skoðuðu Marshall húsið, Brim og Hörpu

Borgarstjórarnir taka þátt í hluta dagskrár sem skrifstofa Forseta Íslands og Utanríkisráðuneytið halda í tilefni tímamótanna. Sóttu þeir kvöldverð á Bessastöðum í gærkvöldi og hófst svo dagurinn í dag með hátíðarsamkomu í Höfða, þar sem þess var minnst að þennan dag árið 1991 var skrifað undir yfirlýsingu um stjórnmálasamband Íslands og Eystrasaltsríkjanna. Því næst var haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti fyrirlesturinn „Icebreaker on the International Scene? Icelandic Support for Baltic Independence 1990-1991.“ 

Að loknum hádegisverði héldu borgarstjórarnir í skoðunarferð og heimsóttu meðal annars Marshall húsið, Brim og Hörpu auk þess sem borgarstjóri sýndi þeim nýjustu umbreytingar í miðborginni. 

Nú síðdegis fer fram móttaka í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem boðsgestir eru Lettar, Litháar og Eistar sem búsettir eru hér á landi auk annarra sem eiga sérstök tengsl við Eystrasaltslöndin. Heimsókn borgarstjóranna lýkur svo með kvöldverði í Höfða í kvöld.