No translated content text
Endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Elliðaárdal stendur nú yfir á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og var staðan á verkefninu kynnt í skipulags- og samgönguráði þann 26. júní síðastliðinn. Hér er sagt frá helstu leiðarljósum í þeirri vinnu, hugtökunum borgargarður og hverfisvernd og hvers vegna þróunarreiturinn við Stekkjarbakka liggur utan marka borgargarðsins.
Unnið að deiliskipulagi Elliðaárdals
Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur fellur Elliðaárdalurinn undir svæði sem er hluti af neti grænna svæða og útivistarsvæða sem hafa þýðingu fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Dalurinn gegnir hlutverki grænnar tengingar gegnum byggðirnar milli fjalls og fjöru og tengir græna trefilinn í upplandinu við strandlengjuna.
Gildandi deiliskipulagi fyrir dalinn er frá 1994 en breytingar hafa verið gerðar reglulega. Mörk dalsins eru ekki skýrt afmörkuð í því skipulagi en í ljósi aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 var orðin brýn ástæða til að endurskoða þetta deiliskipulag.
Leiðarljósin nú í vinnu við endurskoðað deiliskipulag eru þrískipt:
- Varðveita náttúrufar í dalnum og tryggja jafnvægi hins manngerða og náttúrulega.
- Skapa umgjörð fyrir mannlíf og efla möguleika á útivist og upplifun í dalnum.
- Mynda umgjörð um menningu í tengslum við þær hefðir og menningarlandslag sem fyrir er á svæðinu.
Verkefnið felst í því m.a. að
- skilgreina aðalleiðir notendahópa um svæðið
- bæta tengingar göngu- og hjólreiða
- að meta og mögulega endurskoða afmörkun hverfisverndarsvæðis og skilgreina í deiliskipulagi
- vinna ítarlega náttúrufarsúttekt þar með talið kortleggja jarðminjar, lykilvistgerðir og gróðurlendi og búsvæði dýra, einkum fugla
- vinna heildstæða fornleifaskýrslu og húsakönnun fyrir dalinn samhliða skipulagsvinnunni
- skilgreina rjóður og áningarstaði
- vinna með OR/ Veitum að ákvörðun um hreinsun ofanvatns úr götum áður en því er hleypt í árnar skilgreina veiðistaði og aðgengi að þeim
Mörk hverfisverndar í dalnum koma fram í aðalskipulagi 2010-2030 en hugtakið nær yfir svæði og reiti sem njóta sérstakrar verndar vegna byggðarmynsturs, menningarverðverðmæta, landslags eða náttúrufars.
Meginstefna í skipulagi svæðisins er að skapa jafnvægi á milli verndunar og nýtingar svæðisins til útivistar. Elliðaárdalur hefur verið skilgreindur sem borgargarður. Næsta verkefni við mótun endurskoðaðs deiliskipulags Elliðaárdals er að vega og metra 2-3 kosti á afmörkun verndarsvæðis í dalnum.
Hvað er borgargarður?
Hugtakið borgargarður hefur verið í umræðunni í tengslum við deiliskipulag á þróunarsvæði við Stekkjarbakka. Svæðið er mikið raskað og fellur utan deiliskipulags fyrir dalinn sjálfan. Í kaflanum um grænu borgina í aðalskipulagi Reykjavíkur er gerð grein fyrir skilgreiningum og afmörkun opinna svæða í Reykjavík. Þar segir m.a. um borgargarða á bls. 96:
„Elliðaárdalur, Fossvogsdalur, Öskjuhlíð, Klambratún, Vatnsmýri, Laugardalur, Gufunes, Grafarvogur að Hólmsheiði og Úlfarsárdalur frá Blikastaðakró að Hafravatni er stóru borgargarðarnir sem setja hvað mestan svip á borgarlandið. Borgargarðar eru kjarninn í vef útivistarsvæða og göngu- og hjólreiðastíga sem tengja saman útmörkina við strandsvæði borgarinnar. Gert er ráð fyrir því að styrkja sérstöðu og sérkenni svæðanna þannig að hvert svæði bjóði upp á ólíka möguleika til útivistar og afþreyingar. Innan borgargarða er gert ráð fyrir útivistariðkun og fjölbreyttri mannvirkjagerð af ýmsum toga sem tengist nýtingu og þjónustu svæðanna til útiveru, afþreyingar og leikja og allrar almennrar frístundaiðkunar. Einnig má gera ráð fyrir veitingaaðstöðu og veitumannvirkjum. Almennt er gert ráð fyrir að minnsta kosti einum borgargarði/strandsvæði innan við 1.000 m göngufjarlægð frá hverri íbúðaeiningu.“
Elliðaárdalur sem borgargarður
Borgargarðurinn Elliðaárdalur er nokkuð skýrt afmarkaður í gildandi aðalskipulagi og þeim mörkum hefur ekki verið breytt. Ef rýnt er nánar í mörkin, þá sést að afmörkunin er dregin talsvert frá núverandi legu þróunarsvæðis við Stekkjarbakka. Borgargarðurinn innlimar svæði Garðyrkjufélagsins en nær ekki yfri önnur fyrirhuguð mannvirki á svæðinu (ALDIN Biodome, búsetuúrræði og óráðstafaða lóð) eins og deiliskipulagstillaga Stekkjarbakka gerir ráð fyrir.
Í tillögum starfshóps um nýja afmörkun borgargarðs í Elliðaárdal frá því í janúar 2014 eru mörk borgargarðsins skilgreind nokkuð vítt og er Stekkjarbakkinn m.a. innifalinn. Umhverfis- og skipulagssvið veitti umsögn um tillögurnar þann 25. mars 2014 þar sem bent var á að þær þyrftu að endurspegla betur afmarkanir og landnotkunarheimildir í núgildandi aðalskipulagi. Þeirri umsögn fylgdi kort með nýrri tillögu að afmörkun borgargarðsins sem var öllu minni og var Stekkjarbakkinn t.d. ekki innifalinn. Í umsögn USK var einnig lagt til að hverfisvernd yrði skilgreind í deiliskipulagi í kjölfar úttektar á náttúrufari dalsins.
Í framhaldi af því var lögð fyrir borgarráð 11. september 2014 tillaga borgarstjóra sem byggðist á því að fylgt yrði tillögum starfshópsins með þeim breytingum sem komu fram í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs. Tillaga borgarstjóra var síðan samþykkt óbreytt á fundi borgarráðs 2. október 2014.
Starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal
Árið 2015 var stofnaður starfshópur um Sjálfbæran Elliðaárdal. Hópurinn skoðaði ýmis mál m.a. tengt rekstri dalsins, stöðu orkumannvirkja o.fl. og skilaði skýrslu og aðgerðaáætlun í ágúst 2016. Í þeirri skýrslu eru engar tillögur um mörk borgargarðsins enda var það ekki hlutverk hópsins að endurskoða þau enda stutt síðan starfshópur um borgargarð lauk störfum. Í skýrslunni um Sjálfbæran Elliðarárdal, í kafla um fyrri stefnumótun, er greint frá tillögum starfshóps um borgargarð. Þar er sýnt á bls. 13 kort sem sýnir upphaflega tillögu þess hóps að afmörkun borgargarðsins áður en tekið var tillit til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Þróunarsvæðið á Stekkjarbakka er af þeim sökum hluti af borgargarðinum á því korti. Eins og áður segir tók sú tillaga breytingum til að samræmast betur mörkunum í aðalskipulaginu.
Starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal kom ekki sjálfur með neina tillögu að afmörkunum borgargarðsins heldur tók heils hugar undir afmörkun í aðalskipulagi og er því í fullu samræmi við samþykkta tillögu um borgargarð. Þetta má skýrlega sjá í kafla um skipulag og landnotkun á bls. 14 í skýrslunni en þar segir:
„Starfshópurinn telur að fylgja skuli Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi skipulag Elliðaárdalsins. Þær tillögur sem starfshópur um borgargarð setti fram um mörk garðsins eru að flestu leyti ágætar en þó skal taka tillit til þeirra breytinga sem lagðar eru til í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs (USK) um tillögurnar. Breytingarnar í umsögn USK eru lagðar fram í ljósi aðalskipulagsins, vinnu við hverfisskipulag, hugmynda um uppbyggingu Vogabyggðar og áætlaða uppbyggingu á þróunarreitum við Stekkjarbakka, Suðurfell, Ártúnsholt sem og svæðið við Elliðaárvog.
Starfshópurinn leggur ekki til neinar stórfelldar breytingar á landnotkun í Elliðaárdalnum sem krefjast breytingar á aðalskipulagi en sumar tillögur er koma fram í efnisflokkum fyrir neðan ættu að skila sér í endurgerðu deiliskipulagi, í deiliskipulagi einstakra þróunarreita sem og í hverfisskipulagi eins og við á.“
Í aðgerðaáætlun starfshóps um Sjálfbæran Elliðaárdal var m.a. lagt til að „hefja [skuli] undirbúning að gerð deiliskipulag Elliðaárdals og vinna … hefjist 2017“. Má segja að þessi aðgerð hafi verið uppfyllt enda deiliskipulagsvinnan hafin og vel á veg komin.
Græn starfsemi og önnur þjónusta
Græn starfsemi og afþreying á þróunarsvæði við Stekkjarbakka fellur vel að þeim stóru línum sem lagðar verða í tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Elliðaárdals og bætist við önnur þjónustu-, fræðslu- og afþreyingarsvæði í og við jaðardalsins eins og t.d. Rafstöðvarsvæðið, Árbæjarsafn og Árbæjarlaug / Fylkissvæði.
Tenglar
Aðalskipulag Reykjavíkur -Græna borgin