Borgaraþing - fyrstu skrefin
Borgarstjórn Reykjavíkur boðar til opins borgaraþings 8. júní 2024 og stendur þingið yfir á milli kl. 11:00-13:00 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Markmið borgaraþingsins er að skapa vettvang sem hvetji til opinnar umræðu og skoðanaskipta um þjónustu við börn á aldrinum 0-6 ára.
Eftirfarandi er dagskrá þingsins:
Kl. 11:00-11:25
Opnun borgaraþings
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, opnar borgaraþingið og býður þátttakendur velkomna.
Kynning á stefnumótun í málefnum barna
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi kynnir stefnumótun í málefnum barna sem stendur yfir.
Lýðræðismál hjá Reykjavíkurborg
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, sérfræðingur í lýðræðismálum, fjallar stuttlega um borgaraþingið í samhengi við lýðræðisstefnu borgarinnar.
Kl. 11:25-12:45
Umræður á borðum
Ráðgjafar frá Arcur kynna fyrirkomulag fyrir umræður á borðum og hópar hefja umræður.
Kl. 12:45-13:00
Samantekt
Örstutt yfirlit yfir helstu umræðufleti og sjónarmið sem fram koma í umræðum á borðum.
Á borgaraþinginu verður unnið í umræðum á borðum, sérstaklega verður hvatt til umræðna um eftirfarandi atriði sem tengjast þjónustu við börn og barnafjölskyldur:
- Barnvænt borgarumhverfi
- Fjölbreyttar fjölskyldugerðir og þjónusta við þær
- Dagvistun - leikskólar og dagforeldrar
- Umönnunarbil á milli fæðingarorlofs og dagvistunar
- Farsæld barna og aðgengi að velferðarþjónustu
Spurningar sem bornar verða upp í umræðum á borðum eru eftirfarandi:
- Hvað er jákvætt við þjónustuna og kerfið okkar í dag sem þarf að vernda og ýta enn frekar undir?
- Hvernig er hægt að koma betur móts við börn og barnafjölskyldur með nýjum leiðum eða breyttri nálgun í þjónustu?
Foreldrar og forsjáraðilar barna eru hvött til að mæta og skiptast á skoðunum ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem vilja koma sínum skoðunum á framfæri. Börn eru velkomin og í Ráðhúsinu verður sérstakt barnahorn meðan á borgaraþinginu stendur þar sem börn eru á ábyrgð foreldra.