Borg gangandi vegfarenda

Samgöngur Umhverfi

""

Hvernig sköpum við heillandi borg fyrir gangandi vegfarendur? Þessari spurningu verður svarað á Kjarvalsstöðum 14. febrúar kl. 20 í fundaröðinni Borgin, heimkynni okkar, sem umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir. 

Reykjavík á að vera borg fyrir fólk og allir eru með einum eða öðrum hætti, gangandi vegfarendur. Við endurhönnun gatna um þessar mundir er horft sérstaklega til mikilvægis fjölbreytilegs almenningsrýmis og góðu aðgengi íbúa að þeim.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs fyrir fundaröðinni Borgin, heimkynni okkar, um umhverfis- og skipulagsmál. Þriðjudaginn 14. febrúar  kl. 20 á Kjarvalsstöðum verður kastljósið á gangandi vegfarendur.

Gestir fundarinar eru Gísli Marteinn Baldursson borgarfræðingur, Ragnheiður Einarsdóttir, sérfræðingur á skipulagssviði Strætó og Dr. Harpa Stefánsdóttir arkitekt PhD skipulagsfræði. Efnið verður skoðað frá nokkrum sjónarhornum m.a. út frá almenningssamgöngum, fegurðarupplifun í gangandi umhverfi og skipulagi fyrir gangandi.

Gangandi umferð í Reykjavík

Gangandi vegfarendur eru einfaldlega þeir sem fara milli staða á tveimur jafnfljótum eða með hjólastól. Viljinn til að temja sér að ganga um borgina mótast meðal annars af því hvort það er þægilegt, fallegt og öruggt. Það hefur bæði heilsufarslega og hagræna kosti að fara flestallra ferða sinna gangandi í borginni. Gönguhæfni borgarhverfa felst meðal annars í umfangi göngustíga og gangstétta.

Ganga er eitt einfaldasta form hreyfingar sem um getur. Útgjöldin felast einungis í skóm og fatnaði. Hún skapar enga loftmengun. Ganga er nauðsynleg til að komast milli staða og er í raun hluti af hverri einustu ferð, sama hvaða ferðamáti verður fyrir valinu. 

Ganga er sögð bráðholl hreyfing fyrir líkama og sál og flestallir geta gengið að minnsta kosti stutta vegalengd óháð aldri og líkamlegu úthaldi. Gangandi vegfarendur þurfa á öruggum og greiðfærum leiðum að halda sem tengja saman borgarhluta, heimili, vinnu- og þjónustusvæði.

Mikilvægt er að huga að umhverfisgæðum því fólk er mun líklegra til að leggja það á sig að ganga milli staða í aðlaðandi umhverfi með áhugaverðum kennileitum og almenningsrýmum en í umhverfi sem hefur verið hannað eingöngu með tilliti til vélaumferðar.

Hvað vilja gangandi vegfarendur?

Nefna má einnig í þessu sambandi rannsókn á því hvernig auka megi öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þar kemur fram að íbúar virðist almennt kvarta  yfir óöryggi gangandi og hjólandi á öllum götum. Einnig vilja langflestir auka pláss fyrir gangandi á kostnað bílsins. Fólk er hlynt því að samnýta götur (shared spaces) fyrir alla vegfarendur og auka þarf rétt gangandi og breyta götum í vistgötur. Þetta kemur fram í skýrslunni Umferðaröryggi í Vesturbænum eftir Birgi Þröst Jóhannsson og Gunnar Haraldsson.

Vel sóttir fundir á mannamáli

Markmiðið með fundunum í röðinni er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni.

Fundirnir eru mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar og síðan eftir því hvert umræðuefnið er. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni. Þetta er annar fundurinn á vormisseri 2017 . Boðið er upp á kökur og kaffi og reynt að skapa kaffihúsastemningu. Allir eru velkomnir. 

Tenglar

Boð á fundinn á facebook

Vefupptökur af fundunum Borgin, heimkynni okkar

Göngustígakerfi í Reykjavík

Stoppistöðvar - svæði innan við 150 m

Skýrslan umferðaröryggi í Vesturbænum