Blása til menningarhátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Maria Sastre, Tetiana Korolenko og Iryna Hordiienko eru meðal þeirra sem skipuleggja hátíðina.
Þrír skipuleggjendur hátíðarinnar standa saman.

Fjölskyldu- og húsdýragarðinn umbreytist í Menningargarðinn næstkomandi laugardag. Þar verður margbreytileika mannlífsins fagnað með fjölbreyttri dagskrá og uppákomum. Fjöldi fólks leggur sitt að mörkum til hátíðarinnar en það eru svokallaðir sendiherrar í Breiðholti sem skipuleggja daginn.

Sendiherrarnir eiga rætur sínar að rekja í Breiðholtið en teygja nú anga sína um alla borg. Um er að ræða grasrótarverkefni sem stuðlar að því að tengja hina ýmsu mál- og menningarhópa við samfélagið. Þegar það hóf göngu sína fyrir rúmum tveimur árum voru sendiherrarnir sjö frá jafnmörgum mál- og menningarhópum. Í dag eru einstaklingarnir 21 talsins frá 14 mál- og menningarhópum. Þeir gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að miðla upplýsingum um þjónustu Reykjavíkurborgar og allt mögulegt annað til sinna samfélagshópa.

Vilja skapa vináttu og traust milli fólks í samfélaginu

Á meðal þeirra mörgu sem koma að skipulagningu hátíðarinnar eru þær Iryna Hordiienko, Tetiana Korolenko og Maria Sastre. Tetiana starfar í Alþjóðateymi Reykjavíkurborgar en þær Tetiana og Maria gegna báðar hlutverki sendiherra, Tetiana gagnvart fólki frá Úkraínu og Maria gagnvart spænskumælandi hópum í samfélaginu.

Undirbúningur vegna hátíðarinnar hefur staðið frá því síðastliðið haust. „Þá fórum við að ræða möguleikann á því að blása til hátíðar þar sem fólk frá mismunandi menningarheimum gæti komið saman, kynnt sína menningu og sagt frá sjálfu sér,“ útskýrir Tetiana og Iryna bætir við: „Við viljum kynna menningu okkar og hefðir – sýna framan í okkur. Okkur langar til að byggja nokkurs konar samskiptabrýr á milli ólíkra hópa í samfélaginu. Ef fólki á að líða eins og það eigi heima hér á landi er mikilvægt að það finni tengsl við fólkið í landinu. Það er erfitt að vera hluti af samfélagi ef engin samskipti eiga sér stað. Okkur langar til að byggja upp vináttu og traust á milli fólksins í samfélaginu.“

Skemmtiatriði, matar- og drykkjarsmakk og sýningar

Þær vona að sem flest líti við á laugardaginn og lofa skemmtun fyrir alla, börn og fullorðna. Í boði verði dagskrá á sviði með fjölbreyttum atriðum, matar- og drykkjarsmakk af ýmsu tagi, sýning á handverki, vinnustofur fyrir börn og margt fleira. „Við erum búin að kynna þetta vel í okkar menningarhópum og búumst við mörgu fólki,“ segir Maria. „En þetta er ekki bara viðburður fyrir fólk af erlendum uppruna sem býr á Íslandi. Þetta er líka fyrir gesti af íslenskum uppruna. Við vonumst líka til þess að ná til menningarhópa sem hér eru en eru ekki enn orðnir hluti af sendiherraverkefninu. Við óskum þess að sem flest mæti og gleðjist með okkur.“

Þær vonast til þess að veður verði gott svo gestir geti notið sem best alls þess sem Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur upp á að bjóða. Verði rigning er samt enginn skaði skeður því það verður tjaldað yfir sviðið og dagskráin fer fram innan dyra, í veitingaskálnum.

Þær Iryna, Maria og Tetiana vonast eftir því að hátíðin verði árleg hér eftir. Það er ókeypis inn í garðinn á laugardaginn og allur matur sem í boði verður gestum að endurgjaldslausu. Garðurinn opnar klukkan 10 en skipulögð dagskrá stendur á milli 12 og 16. Fjölskyldu- og húsdýragarðuirnn er stærsti bakhjarl verkefnisins. Þá er Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar bakhjarl sendiherranna auk þess að Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar styður hátíðina.