Barnamenningarhátíð - lýðræði og kraftur í miðborginni

Menning og listir

Dansatriði við opnun Barnamenningarhátíðar 2023
Dansatriði við opnun Barnamenningarhátíðar 2023

Barnamenningarhátíð í Reykjavík fer fram dagana 23.-28. apríl. Á hátíðinni má sjá og upplifa þá fjölbreyttu og glæsilegu barnamenningu sem blómstrar í borginni.

Hátíðin fer fram um alla borg og býður upp á stórar og smáar sýningar og viðburði sem unnir eru fyrir börn eða með börnum. Börn taka að miklu leyti yfir menningarlíf borgarinnar og sýna verkin sín á virtum menningarstofnunum dagana sem hátíðin stendur yfir. Í ár er þema hátíðarinnar lýðræði,en íslenska lýðveldið á 80 ára afmæli í ár. Dagskrá Barnamenningarhátíðar hentar öllum aldurshópum og engum ætti að leiðast.

Spyrja eftir þér - lag Barnamenningarhátíðar 2024

Lag hátíðarinnar í ár, Spyrja eftir þér, er flutt af gleðisveitinni Celebs, sem sömdu lagið og textinn er samstarfsverkefni þeirra og barnanna í 4. bekkjum borgarinnar. Börnin unnu lýðræðisverkefni í skólanum þar sem þau sögðu skoðun sína á samfélaginu og hverju þau vilja breyta og er svörunum fléttað inn í textann. Hljómsveitina Celebs skipa systkini frá Suðureyri sem allir þekkja þau Valgeir Skorri, Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís, og eru þekkt fyrir skrautlega sviðsframkomu, eru algjörir húmoristar og brenna fyrir Barnamenningu. Celebs flytja lagið á opnunarviðburði Barnamenningarhátíðar fyrir fullum sal barna í Eldborgarsal Hörpu þann 23. apríl.

Celebs flytja lag Barnamenningarhátíðar 2024 Spyrja eftir þér
Celebs flytja lag Barnmenningarhátíðar Spyrja eftir þér

Fjölbreyttar listsýningar

Á Barnamenningarhátíð er hægt að njóta ýmissa listforma svo sem, myndlistar, tónlistar, danslistar, kvikmyndalistar, sviðslistar og rafmagnaðs raftextíls svo eitthvað sé nefnt. Af nógu er að taka og sjón er sögu ríkari.

Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar

Í anddyri Norræna hússins er hægt að sjá sýninguna Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar sem opnar 23. apríl 2024 og verður til sýnis alla hátíðina. Á sýningunni má sjá verk nemenda Hólabrekkuskóla sem unnin voru í vetur í samstarfi við kennara og fræðslufulltrúa Norræna hússins. Innblástur verkefnisins var sýningin Wasteland Ísland og sjálfbærni í byggingarlist en inn í verkefnið fléttast einnig almenn fræðsla um byggingarlist, skoðun á uppbyggingu Breiðholtsins og hönnun Alvars Aalto, sem er arkitekt Norræna hússins. Í verkefninu var einnig áhersla á almenna umræðu og kynningu á arkitektúr í þeim tilgangi að auka meðvitund nemenda um hvernig umhverfi getur haft áhrif á líðan einstaklinga. Við framleiðslu verkanna voru nýtt efni sem einnig er að finna á sýningunni Wasteland Ísland í bland við önnur hefðbundin og óhefðbundin efni við módelgerðina. Sýningin er í samstarfi við Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars.

Það sem vantar - myndlist hinsegin félagsmiðstöðvar

Á Kjarvalsstöðum verður myndlistarsýningin Það sem vantar. Þar eru til sýnis verk eftir unglinga Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar. Þema sýningarinnar er listafólkið sjálft, þeirra sýn og reynsluheimur. Listaklúbbur félagsmiðstöðvarinnar hefur heimsótt Listasafn Reykjavíkur reglulega í vetur þar sem þau hafa rýnt í listaverk, speglað sig í þeim og velt því fyrir sér hvaða skilaboðum þau vilja koma áleiðis til gesta í gegnum eigin listsköpun. Afrakstur þeirrar vinnu er fjölbreytt og einlæg sýning ungs listafólks á uppleið. Sýningin opnar 23. apríl og stendur út hátíðina.

Hátíðarsýning listdansskólanna

Fjöldi dansnema taka þátt í hátíðarsýningu listdanskólanna sem fram fer þriðjudaginn 23. apríl klukkan 18:30. Boðið verður upp á fjölbreyttan og skemmtilegan dansviðburð þar sem börn á aldrinum 6 - 18 ára eru í aðalhlutverki. Nemendur koma frá eftirtöldum listdansskólum: Dansakademían Selfossi, Danslistarskóli JSB, Dansskóli Birnu Björns, Listdansskóli Hafnarfjarðar, Dansgarðurinn - Klassíski Listdansskólinn og Óskandi, Listdansskóli Íslands og Plie Listdansskóli.

Fjölskyldudiskó í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal

Hvað er betra en að dansa og skemmta sér. Það verður boðið upp á fjölskyldudiskó í Miðgarði þar sem Sunna Ben sér um að halda uppi stuðinu miðvikudaginn 24. apríl frá klukkan 17:00-18:00. Eftir dansinn verður svo boðið upp á afslöppun í sögustund á náttfötunum klukkan 19:00-19:30. Það er fátt jafn notalegt og að koma í sögustund á bókasafninu, hvað þá á náttfötunum. 

Sumardagurinn fyrsti - tónlist, tilraunasmiðjur og sviðslistahátíð

BIG BANG tónlistarhátíð

BIG BANG á Sumardaginn fyrsta

Sumardagurinn fyrsti á sérstakan sess í hjörtum íslenskra barna enda markar dagurinn komu sumars. Tónlistin verður í aðalhlutverki þegar sumarkomunni verður fagnað þann 25. Apríl í Hörpu. BIG BANG tónlistarhátið fyrir ungt fólk er evrópsk hátíð sem hefur það að markmiði að setja upplifun barna í forgrunn. Harpa fyllist af börnum sem vilja njóta tónlistar í víðum skilningi. Dagskráin er fjölbreytt og afar metnaðarfull og samanstendur af tónleikum, innsetningum og tónlistartengdum smiðjum undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Meðal þeirra sem fram koma er lúðrasveitin Svanur sem mun trylla lýðinn, plötusnúðurinn Ívar Pétur þeytir skífum fyrir börnin á Baby rave, hljómsveitin Celebs verða með tónleika sem munu ekki svíkja neinn, Fellakrakkar munu flytja frumsamda tónlist og margt fleira stórskemmtilegt. Allir ættu að finna sér eitthvað að sínum smekk á BIG BANG.

Rafmagnaður textíll í Elliðaárstöð

Elliðaárstöð tekur þátt í Barnamenningarhátíð í 3. sinn og býður að þessu sinni upp á rafmagnaða raftextílsýningu og tilraunasmiðju fyrir fjölskyldur fimmtudaginn 25. apríl kl. 13:00-15:00. Sýningin samanstendur af verkum nemenda 7. bekkjar Selásskóla sem tóku þátt í sérhannaðri raftextílsmiðju sem var samstarfsverkefni Elliðaárstöðvar, Selásskóla og textílhönnuðarins Emmu Shannon. Nemendur fengu það verkefni að skapa nýtt úr gömlum, ónothæfum vinnufatnaði Orkuveitunnar og var markmiðið að fræða nemendur um textíliðnaðinn, sóun, rafleiðni og rafrásir. Samofið því voru nemendur að sporna gegn sóun með raunbæru verkefni sem valdeflir nemendur í getu til aðgerða og með beinni þátttöku í þeirri vegferð. Á sýningunni verður gestum boðið að prófa sig áfram í tilraunasmiðju með raftextíl.

UNGI sviðslistahátíð

UNGI sviðslistahátíð opnar formlega í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 25. apríl með sýningunni Sjáðu mamma, engar hendur sem breski sviðslistahópurinn Daryl&Mimbre kemur sérstaklega til þess að sýna á Barnamenningarhátíð. Sýningin er 30 mínútna danssýning sem fjallar um vináttu og þroska á fallegan  hátt. Sýningin nýtir það einstaklega vel að annar dansarinn er í hjólastól sem opnar fyrir skapandi flæði og óvæntar lausnir. Sýningin er aðgengileg öllum þar sem hún notast ekki við talaðan texta,aðeins dans og tónlist. UNGI stendur yfir dagana 25.-27. Apríl og á boðstólum eru stórglæsilegar leiksýningar og að þessu sinni verða sjö sýningar á hátíðinni. Sex þeirra koma frá Íslandi og verða sýndar í Tjarnarbíói og Borgarleikhúsinu. Aðgangur er ókeypis og hægt er að panta miða á netfanginu ungipostur@gmail.com eða koma hálftíma fyrir sýningu og fá miða.

Dans Brynju Péturs sýnir á sviðinu í Hörpu
Hópur frá Dans Brynju Péturs sýnir á sviðinu í Hörpu

Ævintýrahöllin

Miðborgin býður heim helgina 27.-28. apríl með glæsilegri dagskrá í Ævintýrahöllinni á Borgarbókasafninu Grófinni. Þar er hægt að sjá myndlistarsýninguna Allir með sem verður opin alla vikuna frá 23.-28. apríl. Allir með er samsýning listaverka eftir nemendur í leikskólunum Ævintýraborg (Eggertsgötu og Nauthólsvegi), Grænuborg, Miðborg og Tjörn (Öldugötu og Tjarnargötu). Samvinna, vinátta, umhverfi og tungumál einkenna sýninguna en öll verkin leiða okkur á mismunandi slóðir í gegnum hugarheim þessara allra yngstu listamanna.Verkin á sýningunni urðu til út frá þema hátíðarinnar 2024 sem er lýðræði. 

Dagarnir á bókasafninu hefjast á fjölskyldujóga og krílastund og svo taka við fjölbreyttir dagskrárliðir. Ýmsar föndursmiðjur verða í boði og geta börnin m.a. búið til mótmælaskilti eða texta og takt. Krakkakarókí verður á sínum stað fyrir þau sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og syngja af hjartans list og Æskusirkusinn sýnir sirkusatriði fyrir gesti og bjóða öllum að prófa. Dans Brynju Péturs og Dans Afríka verða svo með danspartý og danssýningu og það mun engan svíkja. Síðan má róa sig niður með því að hlusta á upplestur á hinum ýmsu tungumálum.

Frumsýning í Bíó Paradís

Frumsýning stuttmyndarinnar „Köld jól“ eftir Magnús Gíslason sem er 14 ára verður frumsýnd þann 28. apríl kl. 15:00 í Bíó Paradís. Magnús er ungur og upprennandi kvikmyndagerðarmaður sem leikstýrði og framleiddi myndina sjálfur. Í stuttmyndinni er fjallað um krakka í elstu bekkjum grunnskóla og ýmis alvarleg málefni á borð við einelti, ofbeldi foreldra gagnvart börnum og vanrækslu. Ekki missa af þessari stuttmynd sem sýnir veröldina með augum unglings.

Gleðilega hátíð!

Á Barnamenningarhátíð verður borgin skemmtilegri en aðra daga ársins. Börnin munu setja sitt mark á menningarlíf borgarinnar þessa vikuna. Þeim býðst að fara á fjölbreytta viðburði, sýningar en ekki síður tjá sig um ýmis heimsins málefni af hjartans list. Hægt er að finna alla viðburði hátíðarinnar barnamenningarhatid. Nú er komið að okkur öllum að njóta og upplifa og enginn þarf að greiða krónu fyrir, því allt er ókeypis!

Góða skemmtun!