Barnamenning, friður og gleði

Frá leiksýningu á Barnamenningarhátíð.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík fer fram dagana 18.- 23. apríl og er boðið upp á ókeypis dagskrá alla dagana.

Hátíðin fer fram um alla borg og býður upp á stórar og smáar sýningar og viðburði sem unnir eru fyrir börn og með börnum. Börn sýna verkin sín á virtum menningarstofnunum og taka að miklu leyti yfir menningarlíf borgarinnar þessa sex daga sem hátíðin stendur yfir. Í ár er sérstök áhersla lögð á viðburði í Grafarvogi og viðburði sem tengjast friði. Frítt er inn á alla viðburði Barnamenningarhátíðar.

Hátíðardagskrá í Hörpu

Fjórðu bekkingum í borginni er boðið á opnunarviðburð hátíðarinnar sem fer fram í Eldborgarsal Hörpu þriðjudaginn 18. apríl kl. 09:45 og 11:45. Þar verður mósambískur trommulistahópur, sirkushópurinn Hringleikur og atriði úr leikritinu Draumaþjófnum auk þess sem Vigdís Hafliðadóttir mun frumflytja lag hátíðarinnar Kæri heimur með börnunum í salnum.

Kjarval, álfar og tröll

Þriðjudaginn 18. apríl verður sýning leikskólabarna á Kvistaborg á Kjarvalsstöðum opnuð klukkan 16. Börnin hafa lært um líf og störf Kjarvals og áhrif hans á íslenskt menningarlíf. Kjarvalskrakkarnir opnuðu vinnustofu Kjarvals á leikskólanum, gerðu málverkið Fjallamjólk í þrívídd, Kjarvalsröppuðu, léku sér í Kjarvalsleikjum, máluðu úti í náttúrunni, heimsóttu Listasafn Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, breyttust í tröll og ræddu um lífið og listina. Þetta ferli bauð þeim að ferðast aftur í tímann og kynnast íslenskri menningu og listum, íslensku landslagi, sögum og ævintýrum. Á opnuninni verður góð stemning og börnin flytja Kjarvalsrappið. 

Friður í freyðibaði

Börn á fjórum leikskólum í Grafarvogi; Engjaborg, Fífuborg, Hulduheimum og Lyngheimum fóru í könnunarleiðangur um Grafarvog, þar sem þau túlkuðu frið í umhverfi sínu. Á sýningunni gefur að líta fjölbreytt verk barnanna og öll eru velkomin. Sýningarstjóri er listakonan Anna Andrea Winther. Sýningin verður í Borgarbókasafninu í Spönginni 18. - 23. apríl.

Sætur hundur" í tónleikasal Norræna hússins

Þrjátíu nemendur í 7. bekk Fellaskóla frumflytja vögguvísuna „Sætur hundur" þriðjudaginn 18.apríl klukkan 16:30. Vögguvísan er langtímaverkefni unnið í samstarfi við kennara og nemendur Fellaskóla og tónlistarmennina Elham Fakouri og José Luis Anderson.

Tjáning um kynheilbrigði

Um er að ræða sýningu á textílverkum eftir 170 nemendur í 8. bekk í Hagaskóla opnar í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 19. apríl klukkan 14:00. Viðfangsefni verkanna er tjáning um kynheilbrigði og eru þau innblásin af verkum listakonunnar Kristínar Gunnlaugsdóttur. Verk Kristínar fjalla oft um líf konunnar og kynvitund og tengist því umræðu um jafnrétti kynjanna og mikilvægi heilbrigðrar sjálfsvitundar, ekki síst hjá ungu fólki. Á opnuninni verður lifandi tónlist og gleði.

Heimurinn eins og hann er — heimurinn eins og hann birtist þér

Miðvikudaginn 19. apríl  kl. 16:00 í Ásmundarsafni. Fjögur fötluð ungmenni opna dyr að sinni veröld og bjóða þér að ganga inn og upplifa margbreytileikann. Listahópurinn sýnir eigin verk og sameiginlegt ljósmyndaverk sem varð til í listaflæði hjá Þroskahjálp. Fjórir ungir listamenn, fjölbreytt listform — einn veruleiki sem rúmar allt og við eigum öll saman. 

BIG BANG tónlistarhátið fyrir ungt fólk í Hörpu

Sumardaginn fyrsta 20. apríl verða frumlegir og fjölbreyttir tónlistarviðburðir um alla Hörpu á evrópsku tónlistarhátíðinni BIG BANG. Tónlistarhátíðin hefur það að markmiði að setja upplifun barna í forgrunn.

Harpa fyllist af tónelskum börnum sem fá að njóta fjölbreyttra tónlistarviðburða.. Boðið verður upp á tónleika, innsetningar og tónlistartengdar smiðjur undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Meðal þeirra sem koma fram eru trommulistahópurinn Muputo Mozambique, plötusnúðurinn Ívar Pétur þeytir skífum  á Baby rave, Los Bomboneros flytur ljúfa tóna, Gullplatan - sendum tónlist út í geim frumsamið lag eftir börn spilað af skólahljómsveit Grafarvogs og sungið af barnakórum. Lagið er samið af börnum fyrir geimverur og verður raunverulega sent út í geim. Öll ættu að finna sér eitthvað við hæfi á BIG BANG.

Ævintýrahöllin í Grafarvogi

Við ljúkum hátíðinni á Ævintýrahöllinni sem býður upp á spennandi menningardagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra dagana 22.- 23. apríl í Borgarbókasafninu Spönginni. Ævintýrahöllin hefur í gegnum tíðina flakkað á milli hverfa og nú er komið að Grafarvogi. Dagskráin í Ævintýrahöllinni hefst á fjölskyldujóga og svo taka við fjölbreyttir dagskrárliðir. Ýmsar föndursmiðjur verða á staðnum og geta börnin meðal annars búið til blöðrublóm, barmmerki og friðararmbönd. Krakkakarókí verður á sínum stað fyrir þau sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og syngja af hjartans list. Dans Brynju Péturs tryllir lýðinn með kraftmiklum danssporum, Æskusirkusinn kemur á óvart og örleiksýningin Heimferð verður reglulega yfir daginn í húsbíl fyrir utan bókasafnið. Áhorfendum er boðið inn í húsbílinn til að leggja af stað í ótrúlegt ferðalag undir leiðsögn þriggja óvenjulegra persóna, í gegnum þúsund örsmá augnablik sem færa okkur aftur heim.

Öll velkomin!

Gleðilega Barnamenningarhátíð!