Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur afhent í Höfða

Að athöfn lokinni frá vinstri Katrín Lilja Jónsdóttir, dómnefndarfulltrúi, Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og formaður dómnefndar, Ævar Þór Benediktsson, verðlaunahafi og Einar Þorsteinsson borgarstjóri
Að athöfn lokinni frá vinstri Katrín Lilja Jónsdóttir, dómnefndarfulltrúi, Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og formaður dómnefndar, Ævar Þór Benediktsson, verðlaunahafi og Einar Þorsteinsson borgarstjóri

Ævar Þór Benediktsson, leikari og rithöfundur, hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í dag. Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, afhenti honum verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða.

Alls bárust 41 handrit undir dulnefni í ár, og bar handrit Ævars sigur úr býtum en það nefnist Skólastjórinn.  

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfundar. Verðlaunahandritið Skólastjórinn kemur út hjá Forlaginu á næsta ári. 

Í athöfninni minntist borgarstjóri Guðrúnar Helgadóttur, sem lést árið 2022, og hennar mikilvæga framlags til barnabókmennta.

Ævar Þór hefur ritað hátt í 40 bækur fyrir börn og unglinga, meðal annars bókaflokkana Bernskubrek Ævars vísindamanns og Þín eigin-bækurnar en þær síðarnefndu eru svokallaðar leikbækur þar sem lesendur velja sér leið í gegnum textann. Hann er einnig höfundur bókarinnar Strandaglópar!, sem kom út í Bandaríkjunum í fyrra og hlaut á dögunum heiðursverðlaun Margaret Wise Brown sem barnabók ársins 2024. Næsta bók Ævars, Skólaslit 3: Öskurdagur kemur út í byrjun október.
 

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, verðlaunahafi að lokinni athöfn í Höfða
Ævar Þór Benediktsson, verðlaunahafi að lokinni athöfn í Höfða.

Ævar sagði í ræðu sinni að þessi viðurkenning væri mikill heiður. "Bækur Guðrúnar Helgadóttur voru að sjálfsögðu lesnar fram og til baka á mínu heimili. Mennskan og kærleikurinn sem hún laumaði í línurnar sínar er eitthvað sem hefur setið í mér alla tíð og voru mér ofarlega í huga við skrif Skólastjórans."

Skólastjórinn fjallar um 12 ára strák Salvar, sem óvart fær stöðu skólastjóra og þarf að breyta skólanum að eigin smekk. Bókin er þroskasaga um samskipti og ábyrgð og hugmyndin að sögunni byggir á reynslu Ævars í menntaskóla. Hann fékk innblástur frá börnum við skrifin og notaði hugmyndir þeirra til að móta söguna.

Í dómnefnd sátu: Yrsa Sigurðardóttir, Þorgeir Ólafsson og Katrín Lilja Jónsdóttir.

Úr umsögn dómnefndar: 

Sjaldan hafa jafnmörg handrit borist í samkeppni Reykjavíkurborgar um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og í ár. Fjölmörg þeirra voru prýðisgóð og dómnefnd átti úr vöndu að ráða. Eftir endurtekinn lestur þeirra handrita sem þóttu skara fram úr varð það einróma álit dómnefndar að „Skólastjórinn“ væri það handrit sem bar af. Um handritið hafði dómnefnd þetta að segja: „Skólastjórinn“ er skemmtileg og fyndin saga sem á án efa eftir að heilla unga lesendur. Sögupersónur eru vel skapaðar og trúverðugar og það sem drífur á daga þeirra er bæði skondið og til þess fallið að reyna á þær og þroska. Sagan er frumleg en hún segir frá Salvari og Guðrúnu vinkonu hans sem eru uppátækjasöm úr hófi. Þegar skólastjórinn í skólanum þeirra hættir störfum sækir Salvar um stöðuna og endar í hlutverki sem glansinn fer af þegar fram líða stundir. Þó að húmorinn sé aldrei langt undan þá þurfa bæði Salvar og Guðrún að fást við trúverðug vandamál sem gefur lestrinum aukið vægi, þó aldrei þannig að skemmtanagildi lestursins missi dampinn. Sagan er svo í þokkabót vel skrifuð, á nútímamáli sem börn skilja og án óhóflegra enskuslettna. Dómnefnd telur einsýnt að „Skólastjórinn“ eigi eftir að falla vel í kramið hjá hressum krökkum enda skrifuð í anda eins besta barnabókahöfundar Íslendinga sem verðlaunin heita í höfuðið á.

Verðlaunin eru nú veitt í fimmta sinn. Fyrri verðlaunahafar voru 2019: Bergrún Íris Sævarsdóttir: Kennarinn sem hvarf. 2020: Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir: Blokkin á heimsenda. 2021: Margrét Tryggvadóttir: Sterk. 2022: Verðlaunin voru ekki veitt þar sem ekkert handrit þótti uppfylla þær kröfur sem gerð eru til verðlaunaverka. 2023: Kamilla Kjerúlf: Leyndardómar draumaríkisins.

Til hamingju með Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2024 Ævar Þór!