Austurstræti verður göngugata í sumar

Borgarhönnun Göngugötur

Teikning af forhönnun Austurstrætis sem göngugötu en framkvæmdir eru ekki á döfinni í sumar en göngugatan verður afmörkuð með viðeigandi umferðarmerkjum.
Teiknuð mynd af Austurstræti sem göngugötu með fólki og trjám og húsum beggja vegna.

Austurstræti verður göngugata í sumar og Pósthússtræti verður vistgata. Breytingin tekur gildi í kringum næstu mánaðamót, eða þegar nýjar merkingar verða komnar upp, og verður þetta fyrirkomulag í gildi til 1. október 2024. Enn fremur ná breytingarnar til Veltusunds og hluta Vallarstrætis og Hafnarstrætis.

Þetta var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í morgun. Breytingarnar byggja á samþykkt ráðsins um undirbúning Kvosarinnar sem göngugötusvæðis frá 10. janúar síðastliðnum og eru hluti af því að koma í framkvæmd framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar sem samþykkt var 2020.

Auðgar mannlíf og bætir aðgengi og öryggi

Markmið breytinganna er að stuðla að bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda, hreyfihamlaðra og þjónustuaðila ásamt því að auðga mannlíf og vöxt miðborgarinnar.

Göturnar sem verða göngugötur í þessum áfanga eru: 

  • Austurstræti frá Pósthússtræti að Ingólfstorgi
  • Veltusund
  • Vallarstræti vestan Veltusunds

Til viðbótar verða tvö bílastæði, eitt í Hafnarstræti og eitt í Pósthússtræti, merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða.

„Í öllum hverfum eru langtum fleiri jákvæð en neikvæð gagnvart göngugötum og þeim fjölgar sem telja að göngusvæðin megi vera stærri. Við hlustum á íbúa og tökum þessu sem hvatningu til þess að fjölga göngusvæðum í borginni og erum nú að stíga skref í þá átt,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. 

„Fólk hefur eðlilega skiptar skoðanir á þróun borgarinnar og samgöngumálum en ég held að við kunnum öll vel að meta að geta stigið út úr amstri dagsins, rölt um áhyggjulaus jafnvel með lítil kríli hlaupandi um með svigrúm til að setjast niður í skemmtilegu borgarumhverfi til að njóta stundarinnar,“ segir hún.

Vörulosun tryggð og neyðarakstur

Undanþegin banni við akstri á göngugötum, umfram þau sem tiltekin eru í umferðarlögum eins og handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra, verður vörulosun klukkan 07-11 á virkum dögum og klukkan 08-11 á laugardögum og sunnudögum. Þá hafa viðbragðsaðilar eins og lögregla, sjúkraflutningar og slökkvilið greiðan aðgang að göngugötusvæðum borgarinnar.

Vistgata er gata þar sem gangandi vegfarendur eru í forgrunni. Vélknúnum ökutækjum er heimilt að aka á að hámarki 15 km/klst hraða og ber að sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og að víkja fyrir þeim.

Ljósmyndasýning í Austurstræti

Framkvæmdir við endurgerð yfirborðs Austurstrætis eru ekki á döfinni í sumar en til að byrja með verður göngugatan afmörkuð með viðeigandi umferðarmerkjum. Í framtíðarhönnun Austurstrætis, sem hefur áður verið kynnt, er áherslan lögð á eitt yfirborð milli húsa og ríkuleg gróðurbeð norðan götunnar. Götugólfið á að skapa rólegt andrúmsloft með gróðri sem skapar mýkt. Þá er áherslan á að rými götunnar sé heildstætt og virðulegt í anda Kvosarinnar sem er söguleg miðja borgarinnar. 

Ljósmyndastandar sem hafa verið í Pósthússtræti verða fluttir í bílastæði í Austurstræti en það er við hæfi að á stöndunum er komin upp ljósmyndasýning um sögu Austurstrætis og nágrennis í gegnum tíðina.

Samráð og kynning

Gert er ráð fyrir að tíminn til 1. október verði notaður til að leggja mat á árangur þessara aðgerða og leitað frekara álits hagaðila. Út frá því verður lagt mat á framhaldið og tillaga til framtíðar mótuð. Borið var út bréf til hagaðila um síðustu mánaðamót vegna þessara breytinga þar sem boðið var upp á samtal um málið. Áður hafði verið óskað eftir ábendingum um nýtt umferðarskipulag Kvosarinnar og sú tillaga send til umsagnar helstu hagsmunaaðila.

Borgarbúar ánægðir með göngugötur

Hátt í þrír af hverjum fjórum, eða 72% borgarbúa, eru jákvæðir í garð göngugatna í miðborg Reykjavíkur. Jákvæðni eykst gagnvart göngugötum og neikvæðum hefur verulega fækkað á síðustu árum eða úr 20% árið 2019 í 9% árið 2023.