Stóraukinn stuðningur við börn af erlendum uppruna í skóla- og frístundastarfi hefur verið samþykktur í borgarráði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði til að tillögur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs yrðu innleiddar í áföngum en í þeim felst að 195 milljónir fari í verkefnið í ár og nærri 342 milljónir árið 2025.
Mikil fjölgun barna með fjölbreyttan tungumálabakgrunn
Íbúum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn hefur fjölgað undanfarna áratugi og ekki síst undanfarin ár og því mikil fjölgun í hópi barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Talsverður munur er á íbúasamsetningu milli einstakra hverfa og borgarhluta sem felur í sér bæði áskoranir og tækifæri í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að öll börn sem hingað koma fái tækifæri og stuðning til að þróa og nýta sína hæfni.
Í leikskólum fjölgaði börnum úr 1439 árið 2020 í 1.646 árið 2023. Ár hvert flytja á bilinu 150 til 170 börn til landsins á grunnskólaaldri og hefja skólagöngu í Reykjavík. Í grunnskólum fjölgaði börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn úr 2.766 árið 2020 í 3.592 árið 2023. Á síðastliðnum tveimur árum hefur fjölgun í hópi flóttamanna bæst við þann hóp. Á árunum 2021 til 2023 voru 148 börn með stöðu flóttafólks í leikskólum og 402 börn með stöðu flóttafólks í grunnskólum sem kallar á meiri stuðning. Börn með fötlun er sístækkandi hópur í grunnskólum og telst vera um 45 börn, þar af 9 sem eru í Klettaskóla og 9 í táknmálsdeild Hlíðaskóla. Ætla má að börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn haldi áfram að fjölga í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi í Reykjavík.
Nauðsynlegt að mæta brýnum verkefnum
Í tillögunum felst að þeim verkefnum sem brýnust eru í grunnskólum borgarinnar vegna barna með annað móðurmál en íslensku verði mætt markvisst. Reykjavík býr við þá sérstöðu að fá ekki sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði vegna barna með annað móðurmál en íslensku. Í desember féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um að Íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að afnema almennt jöfnunarframlag vegna barna með annað móðurmál en íslensku í Reykjavík. Ríkið var dæmt til að greiða borginni rúma þrjá milljarða vegna þessa en hefur áfrýjað dómnum.
Þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt eins og önnur sveitarfélög hefur borgin engu að síður veitt umtalsverðan stuðning undanfarin ár til að styðja við börn af erlendum uppruna.
Listi yfir helstu verkefni síðustu ár til að styðja við börn með annað móðurmál:
- Á skóla- og frístundasviði starfa tveir verkefnastjórar fjölmenningar.
- Velkomin í hverfið þitt móttökuáætlun leik- og grunnskóla með aðkomu þjónustumiðstöðvar og frístundastarfs.
- Stöðumat fyrir nýkomna nemendur (sænska matstækið) tekið í notkun en það metur færni barns á eigin móðurmáli og/eða á því tungumáli sem barnið er sterkast í.
- Miðja máls og læsis þar sem starfa tveir kennsluráðgjafar með sérþekkingu í móttöku, aðlögun og kennslu í íslensku sem öðru máli auk þess sem þeir hafa stýrt og leiðbeint starfsstöðvum varðandi stöðumat fyrir nýkomna nemendur.
- Brúarsmiðir í þrem stöðugildum sem tala arabísku og kúrdísku, pólsku, filippseysku og úkraínsku starfa í Miðju máls og læsis. • Stoðdeild Birtu fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd.
- Íslenskuver í öllum borgarhlutum fyrir börn í 5. – 10.bekk sem eru nýflutt til landsins.
- Skólaúrræði fyrir nemendur frá Úkraínu sem eru búsett í í tímabundnu húsnæði.
- Gjaldfrjáls frístund fyrstu þrjá mánuðina sem barn er á Íslandi.
- Fjárveitingar til leik- og grunnskóla vegna kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
- Ýmis námskeið fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundar til þess að stuðla að markvissri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og fjölmenningarlegum starfs- og kennsluháttum.
Þrátt fyrir þessi verkefni og aukna stuðning er það eindregið mat skóla- og frístundasviðs að auka þurfi við stuðning við einstök börn og tungumálahópa, auka framlög til skóla með hverju barni og styrkja kennsluráðgjöf í íslensku. Með samþykkt borgarráðs hefur því verið ákveðið að fara í enn frekari aðgerðir til að styrkja þennan hóp barna.
Listi yfir aðgerðir sem hafa nú verið samþykktar:
- Stuðningsteymi vegna barna á flótta með mikla áfallasögu.
- Ráðning spænskumælandi brúarsmiðs í Miðju máls og læsis.
- Kennsluráðgjafar í íslensku sem öðru máli í allar miðstöðvar.
- Viðbótar stöðugildi inn í fjögur íslenskuver.
- Úthlutun fyrir kennslu í íslensku sem annað tungumál veri aukin í 170 þúsund á hvert barn, eins og Jöfunarsjóður greiðir fyrir börn í öðrum sveitarfélögum.
- Sundkennsla barna á mið- og unglingastigi sem eru ósynd.
- Túlkapottur til stuðnings við börnin og fjölskyldur þeirra.