Aukið líf færist í félagsstarf eftir rýmkun á samkomubanni

Covid-19 Velferð

""

Félagsstarf eldra fólks í Reykjavík hefur verið skert undanfarnar vikur, vegna tíu manna samkomutakmarkana. Frá og með deginum í dag mega 20 manns koma saman og færist félagsstarf því í eðlilegra horf, þó enn séu ýmsar takmarkanir í gildi. 

Matarþjónusta í opnum félagsmiðstöðvum borgarinnar hefur legið niðri að undanförnu en hún hefst aftur frá og með mánudeginum 19. apríl. Gestir skrá sig í mat fyrirfram og er hleypt inn á fyrirfram ákveðnum tíma. Matur verður skammtaður á diska fyrir hvern og einn og gætt að tveggja metra nándarmörkum við skipulag borðhalds. 

Áfram verður lokað fyrir utanaðkomandi gesti í þeim mötuneytum þar sem þjónustuíbúðir eru til húsa. Það gildir um Vitatorg, Seljahlíð, Dalbraut, Norðurbrún, Lönguhlíð og Furugerði. Minnt er á að hægt er að fá matinn sendan heim. 

Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar um mat í félagsmiðstöðvum og heimsendingu matar.

Fjöldatakmarkanir í hverju rými fara nú úr tíu í tuttugu manns eins og fyrr segir. Það gefur möguleika á fjölbreyttara hópastarfi en áfram þarf að skrá þátttöku fyrirfram á alla viðburði. Þá verða rafrænir viðburðir áfram í boði. Öllum sem vilja verður boðið upp á að fá símtal heim eftir þörfum. 

Hárgreiðslustofur og fótaaðgerðastofur verða opnar en þar þarf að virða grímuskyldu og gæta vel að smitvörnum. Snertifletir verða sótthreinsaðir á milli viðskiptavina. 

Almennt séð gildir það sama og alls staðar annars staðar þar sem fólk kemur saman – að gæta þarf að persónulegu hreinlæti, virða tveggja metra regluna og grímuskyldu. Þau sem finna fyrir slappleika eru vinsamlegast beðin að mæta ekki í félagsmiðstöðvar. 

Ný reglugerð gildir til og með 5. maí 2021.