Aukið fjármagn sett í sálfræðiþjónustu fyrir börn

Covid-19 Velferð

""

Borgarráð samþykkti í dag 140 milljóna króna aukafjárheimild til tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga, til að vinna úr áhrifum Covid-19 á börn og unglinga. Áður hafði borgarráð samþykkt fimm tillögur sameiginlegs stýrihóps skóla- og frístundasviðs og velferðarráðs, sem miða að því að bæta þjónustu við börn og unglinga í Reykjavík.

Á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs þann 8. júní síðastliðinn var lögð fram sameiginleg tillaga stýrihóps skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. Á meðal tillagna stýrihópsins var að óska eftir 140 milljóna króna fjárheimild til borgarráðs, til þess að vinna með börn og unglinga vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19. Um er að ræða kostnað vegna tímabundinna stöðugilda og aðkeyptrar vinnu frá og með 1. júlí 2021 til 30. júní 2022. Borgarráð samþykkti þá tillögu á fundi sínum í dag. 

!function(e,i,n,s){var t="InfogramEmbeds",d=e.getElementsByTagName("script")[0];if(window[t]&&window[t].initialized)window[t].process&&window[t].process();else if(!e.getElementById(n)){var o=e.createElement("script");o.async=1,o.id=n,o.src="https://e.infogram.com/js/dist/embed-loader-min.js",d.parentNode.insertBefore(o,d)}}(document,0,"infogram-async");

 

Mikil eftirspurn er eftir sálfræðiþjónustu en sterkar vísbendingar eru um að tilfinningalegur vandi barna á grunnskólaaldri hafi aukist á tímum Covid-19 faraldursins. Ef allar beiðnir til skólaþjónustu velferðarsviðs eru dregnar saman má sjá að tilvísunum fjölgaði verulega í kjölfar faraldursins. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2020 komu 669 beiðnir til skólaþjónustunnar. Þeim fjölgaði um helming á árinu 2021 og voru 1380 talsins á sama tímabili. Tilvikum þar sem aðalástæða beiðni voru tilfinningalegir erfiðleikar fjölgaði um 336% frá 1. janúar 2020 til 1. maí 2021.

Þessi fjölgun barna með tilfinningalegan vanda endurspeglar þá þróun sem nýlegar rannsóknir á andlegri líðan ungmenna í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum sýna. Rannsókn R&G á líðan barna í 8.–10. bekk grunnskóla sýna að kvíði og einmanaleiki hefur aukist, bæði hjá drengjum og stúlkum. Rannsóknin sýnir að um 17% stúlkna upplifðu sig einmana, niðurdregnar eða daprar í október 2020 en um 7% drengja.

Áætlað er að fjárveitingin dugi til að veita allt að 650 börnum þjónustu á 12 mánaða tímabili. Lögð verður sérstök áhersla á að nýta þekkingu hjá sérfræðingum velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs til að koma á fót  hópastarfi og námskeiðum fyrir hluta hópsins. 

Borgarráð hafði áður samþykkt fimm tillögur sameiginlegs stýrihóps skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs sem falið var að skoða hvernig bæta mætti stoðþjónustu við börn og unglinga í Reykjavík með sérstakar þjónustuþarfir. Um það má lesa hér en skýrslu stýrihópsins má nálgast hér