Skilvirkari stoðþjónusta við börn og unglinga um alla borg

Velferð Skóli og frístund

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag fimm tillögur sameiginlegs stýrihóps skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs sem falið var að skoða hvernig bæta mætti stoðþjónustu við börn og unglinga í Reykjavík með sérstakar þjónustuþarfir.

Tillögur stýrihópsins  eru víðtækar og miða að því að bæta stoðþjónustuna og gera hana skilvirkari svo hún skili börnunum sem mestum framförum varðandi þætti eins og líðan, læsi og félagsfærni.

Megintillagan gengur út á að innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn um alla Reykjavíkurborg. Markmiðið er að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtæks stuðnings. Borginni verði skipt í fjögur þjónustuhverfi: Eitt í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum, annað í Laugardal og Háaleiti og það þriðja í Grafarvogi, Kjalarnesi, Árbæ og Grafarholti. Unnið er að mati á sambærilegu verkefni Betri borg fyrir börn í Breiðholti og verður stuðst við þær  niðurstöður í skipulagi á verkefninu sem verði innleitt frá og með næstu áramótum.

Samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs eykst við breytinguna og verður frá 1. janúar 2022 hægt að sækja samþætta skóla- og fjölskylduráðgjöf í þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Þær verða fjórar talsins í samræmi við fjölda þjónustuhverfa. Stjórnun skóla, leikskóla og frístundamiðstöðva færist í auknum mæli út í hverfin auk þess að ráðgjöf við foreldra og starfsfólk skóla og leikskóla verður styrkt verulega.

Stýrihópurinn leggur einnig til að 140 milljónum króna verði varið til að vinna með börnum og unglingum vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldurs. Sú tillaga bíður umsagnar fjármálasviðs og verður tekin fyrir í borgarráði þegar hún liggur fyrir. Mikil eftirspurn er eftir sálfræðiþjónustu vegna aukins tilfinningavanda barna og ungmenna. Þannig biðu þann 1. maí 1.033 börn eftir fyrstu þjónustu, 525 börn eftir þjónustu sálfræðings og 430 eftir þjónustu talmeinafræðings. Áætlað er að fjárveitingin dugi til að veita allt að 650 börnum þjónustu á 12 mánaða tímabili.

Tekið verður í auknum mæli tillit til lýðfræðilegra þátta við úthlutun fjármagns til grunnskóla í borginni með það að markmiði að auka jöfnuð milli barna og skóla í anda stefnunnar um Menntun fyrir alla. Byggt verður á Vísum að auknum tækifærum (e. Learning opportunites index – LOI) sem er stuðull sem á að endurspegla þær áskoranir sem er að finna í umhverfi nemendahóps í hverjum skóla og geta haft áhrif á árangur hans.

Faglegt mat verður gert á árangri af sérkennslu, sértækum stuðningi í skóla- og frístundastarfi, skólaþjónustu og þjónustu velferðarsviðs við börn og fjölskyldur. Með rýningu á reglubundnu stöðumati skólanna á læsi, félagsfærni og líðan verður hægt að bregðast sérstaklega við þjónustuþörfum þeirra barna sem þarfnast stuðnings og þjónustu. Lögð verður áhersla á að rökstyðja val á stuðningsaðferðum með vísan til gagna með það fyrir augum að þær skili sér í framförum varðandi líðan, læsi og/eða félagsfærni viðkomandi barna.

Umsóknarferli um skólaþjónustu verður rafvætt og endurskoðað út frá þörfum notenda.

Í síðasta lagi verður sett á laggirnar verkefnisstjórn til að tryggja markvissa innleiðingu tillagna stýrihópsins og undirbúa fyrir hönd borgarinnar innleiðingu á væntanlegri löggjöf um farsæld barna sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Stýrihópinn skipuðu Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. Með hópnum störfuðu Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, skrifstofustjóri á skóla- og frístundasviði og Dís Sigurgeirsdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði. Hægt er að skoða skýrsluna hér.