Systkinin Gunnsteinn og Guðný Olgeirsbörn eiga mikinn þátt í hinni gróðurmiklu Reykjavík sem blasir nú við borgarbúum og gestum. Þau eru bæði garðyrkjufræðingar og létu nýlega af störfum eftir áratuga vinnu hjá Reykjavíkurborg.
Guðný var yfirverkstjóri garðyrkju á Klambratúni í mörg ár og Gunnsteinn var yfirverkstjóri garðyrkju í Elliðaárdal. Gunnsteinn hóf störf hjá borginni 16 ára gamall eða fyrir 50 árum og Guðný fyrir 38 árum eða árið 1986. Þau nefna að Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri hafi kennt þeim mikið.
Bæði Guðný og Gunnsteinn voru framúrskarandi starfsmenn og afskaplega vel liðin af samstarfsmönnum og það var einkennandi fyrir þau hvað það var alltaf gott að leita til þeirra varðandi aðstoð og ráðleggingar.
Fagmennska og metnaður
„Þau eru bæði ljúf í samstarfi,“ segir Þórólfur Jónsson deildarstjóri náttúru og garða en hann vann lengi með þeim og tók þátt í að gefa borginni græna ásýnd. „Þau eru hugmyndarík og það var aldrei neitt mál að leysa úr hinum margvíslegu verkefnum sem upp komu. Það var mikill fengur fyrir mig að geta leitað til þeirra og vita um traustið og væntumþykjuna.“
Þau unnu í góðu samstarfi við aðra garðyrkjufræðinga hjá borginni, meðal annars hjá Ræktunarstöðinni í Fossvogi. Fagmennska og metnaður einkenndi þeirra starf, segir samstarfsfólk þeirra.
„Það einkenndi þau að vera bóngóð, góð í sínu fagi og ekki síst jákvæðir áhrifavaldar á sínum starfsstað. Málin voru einfaldlega leyst án umkvartana,“ segir Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri skrifstofu borgarlandsins.
Samvinna og kraftur
Verkefni þeirra voru viðamikil og afraksturinn er sýnilegur en allt var þetta góðri samvinnu að þakka og góðum krafti í vinnuhópum: að planta og skapa skjól. Vindasöm borg varð skjólgóð með gróðrinum.
Starfsfólk þeirra sá um alla skrúðgarða, Austurvöll, Seljatjörn og græna svæðið frá Breiðholtslaug að Ölduselsskóla svo dæmi séu tekin. Verkefnin voru til dæmis falin í því að; gróðursetja tré á opnum svæðum, viðhald á beðum, arfahreinsun, stinga niður sumarblómum, fegra skrúðgarða, stofnanalóðir, uppbygging leiksvæða, tyrfa götueyjur, umsjón með matjurtagörðum, blómakörfum, fegra hringtorg með blómum.
„Ég hugsa stundum þegar ég keyri um borgina, til dæmis bara Miklubrautina: Hér plöntuðum við trjám og nú eru þau að gera sitt gagn,“ segir Guðný en þess má geta einnig að borgin var ekki svona græn og gróðursæl þegar hún hóf störf. Stundum er sagt að stærsti skógurinn á landinu sé í Reykjavík, þegar allt er tiltekið.
Umsjón með opnum svæðum og viðamiklum trjábeðum
Guðný sá um gróðurinn í vesturhluta borgarinnar, að Laugardalnum undanskildum og Gunnsteinn í austurhlutanum. Breiðholtið var hálfbyggt þegar hann hóf störf og Grafarvogur rétt að byggjast. „Við byggðum upp öll leiksvæðin í Grafarvogi, skipulögðum vinnuna og okkur hélst sem betur fer á góðum mannskap,“ segir Gunnsteinn og nefnir einnig uppbygginguna í Norðlingaholti og Úlfarsárdal.
Þau eru stolt af því sem þau gerðu og hvernig ásýnd borgarinnar breyttist. Þau höfðu umsjón með opnum svæðum og stórum og miklum trjábeðum. Þau voru góðir yfirmenn því þau unnu verkin á jafningjagrundvelli. Oft voru þau, hvort fyrir sig, með 100 sumarstarfsmenn, þannig að gott skipulag var nauðsynlegt.
Hægt væri að halda áfram lengi vel að telja upp verkefnin en þess skal geta að 17. júní verður vitaskuld alltaf hápunktur í garðyrkjunni. Þann dag þarf allt af vera fínt, búið að hreinsa og gróðursetja fallegu sumarblómin.
Þau ákváðu að ljúka störfum saman á þessu ári. „Ég hef vaknað klukkan hálf sjö í fimmtíu ár og hlakkaði alltaf til að mæta í vinnuna,“ segir Gunnsteinn. „Starfsfólkið var frábært og við sjálf vorum alltaf með góða yfirmenn hjá borginni,“ segir Guðný, nú síðast Zuzana Vondra Krupkova hjá garðyrkjunni og Björn Ingvarsson hjá Borgarlandinu.
Reykjavíkurborg þakkar þeim systkinum fyrir gjöfult samstarf öll þessi ár.