Ársskýrsla Barnaverndar Reykjavíkur komin út

Barnavernd Reykjavíkur flutti nýlega í nýtt húsnæði í Ármúla 4.

Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur fækkaði um 6,8% milli áranna 2020 og 2021 eftir mikla fjölgun milli áranna 2019 og 2020. Tilkynningum um vanrækslu fækkaði um 4,8% en tilkynningum um áhættuhegðun um 11%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri ársskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur.

Þar kemur einnig fram að tilkynningum um kynferðisofbeldi fjölgaði verulega milli ára eða um 50%. Þær voru 142 árið 2020 en 213 árið 2021. Ætla má að aukin umræða um kynferðisofbeldi og ákveðin vitundarvakning eigi sinn þátt í þessari fjölgun tilkynninga. Það er fyrst og fremst hlutverk barnaverndar að koma málefnum barna í þessari stöðu í farveg í Barnahúsi þar sem málin eru könnuð og boðið upp á meðferðarviðtöl.

Í lok árs 2021 störfuðu 62 starfsmenn á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur í fimm mismunandi teymum. Í ársskýrslunni er gerð grein fyrir þessum mismunandi teymum og þeirri sérhæfingu sem þau búa yfir, auk þess sem vistunarúrræðum Barnaverndar eru gerð góð skil. Þar er jafnframt fjallað um helstu áskoranir sem barnaverndarstarf stendur frammi fyrir svo sem dómaframkvæmd á vegum Mannréttindadómstóls Evrópu sem kann að hafa þýðingu hér á landi og langvarandi skorti á meðferðarúrræðum og fósturforeldrum fyrir börn með fjölþættan vanda.