Árbæjarlaug fagnar 20 ára afmæli

Framkvæmdir Íþróttir og útivist

""

„Laugin var og er ein allra glæsilegasta laug borgarinnar með stórkostlegu útsýni yfir Elliðaárdalinn,“ segir Guðrún Arna Gylfadóttir forstöðukona í Árbæjarlaug, en á miðvikudag 30. apríl eru 20 ár liðin frá opnun laugarinnar.

Í tilefni 20 ára afmælis Árbæjarlaugar er gestum boðið frítt í sund ásamt því að þiggja léttar veitingar. „Borgarbúar tóku nýju lauginni vel og gera enn,“ segir Guðrún Arna.  Heildarfjöldi heimsókna á ári er um 300 þúsund.

Síðustu ár hefur verið hlúð að Árbæjarlaug. Nýr nuddpottur var settur upp fyrir tveimur árum með tilheyrandi stýrikerfi. Eimbaði var einnig komið upp, auk þess sem ráðist var í úrbætur vegna ferlimála. 

Árbæjarlaug stendur við útivistarsvæði Reykvíkinga í Elliðaárdalnum með aðkomu um Fylkisveg. Bygging sundlaugarinnar hófst árið 1991 og er hvolfþaki úr gleri yfir innilaug og innigarði einkennandi fyrir hana.  Útisundlaugin er 25 metrar og á útisvæði eru iðulaugar, heitir pottar og leiktæki.  Arkitektastofan Úti og inni sf. sá um hönnun en hönnunar- og byggingarstjórn var í höndum byggingardeildar borgarverkfræðings. Byggingarkostnaður vegna Árbæjarlaugar fyrir 20 árum var um 630 milljónir króna.