Andrea, Haraldur og Ísold íþróttafólk Reykjavíkur 2023

Íþróttir og útivist

Frá vinstri: Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Andrea Kolbeinsdóttir, íþróttakona Reykjavíkur, Ísold Klara Felixdóttir, íþróttakvár Reykjavíkur, Haraldur Franklín Magnús, íþróttakarl Reykjavíkur og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Frá vinstri: Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Andrea Kolbeinsdóttir, íþróttakona Reykjavíkur, Ísold Klara Felixdóttir, íþróttakvár Reykjavíkur, Haraldur Franklín Magnús, íþróttakarl Reykjavíkur og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hópmynd í Tjarnarsal Ráðhúss þegar verðlaunin voru afhent.

Tilkynnt var um val á íþróttafólki Reykjavíkur 2023 í Tjarnarsal Ráðhússins í kvöld. Tilefnið er ávallt hátíðlegt og óskum við þessu glæsilega íþróttafólki hjartanlega til hamingju með titlana og árangurinn á árinu sem er að líða.

Íþróttakona Reykjavíkur 2023 er Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttakona í Íþróttafélagi Reykjavíkur.

Andrea Kolbeinsdóttir er heldur betur búin að eiga ótrúlegt ár en hún gerði sér lítið fyrir og vann öll þau hlaup á árinu sem hún tók þátt í. Meðal þeirra hlaupa sem hún vann voru Laugavegshlaupið og Reykjavíkurmaraþonið, þar sem hún var 33 mínútum á undan næstu konu. Hún gerði sér einnig lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í 5 og 10 kílómetra götuhlaupi, hálfu og heilu maraþoni, 1500 metra hlaupi, 3000 metra hindrunarhlaupi og í 5000 metra hlaupi. Í heildina vann hún sjö Íslandsmeistaratitla í hlaupum sem er magnaður árangur. Að lokum má bæta við að Andrea lenti í 35. sæti á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í 45 kílómetra hlaupi.

Andrea var ekki eingöngu sigursæl á hlaupabrautinni en hún varð einnig Íslandsmeistari í skíðagöngu í tveimur greinum, 5 kílómetra göngu með hefðbundinni aðferð og í liðakeppni, en einnig fékk hún tvö silfur í sprettgöngu og 10 kílómetra göngu með frjálsri aðferð.

Íþróttamaður Reykjavíkur 2023 er Haraldur Franklín Magnús kylfingur í Golfklúbbi Reykjavíkur.

Haraldur Franklín Magnús átti frábært ár en hann lék 13 mót á Áskorendamótaröð Evrópu. Meðal annarra afreka á árinu hjá Haraldi má telja upp að hann tók þátt í lokaúrtökumóti fyrir The Open, komst í lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröðina, lék á tveimur mótum DP World Tour, endaði í 127. sæti á Áskorendamótaröðinni og vann sér inn þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. Þess má einnig geta að Haraldur Franklín er ennþá eini íslenski karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti, en hann lék á Opna breska meistaramótinu í júlí 2018.

Íþróttakvár Reykjavíkur 2023 er Ísold Klara Felixdóttir karatekvár úr Fylki.

Ísold átti heldur betur frábært ár og er landsliðskvár í karate, fékk svarta beltið í ár og náði í silfur og brons á smáþjóðamóti Evrópu í ár.

Íþróttalið ársins í Reykjavík 2023 er karlalið Víkings í knattspyrnu.

Víkingur átti frábært tímabil og er Íslands- og bikarmeistari 2023. Víkingsliðið sigraði því allt sem hægt var að sigra á árinu og setti liðið bæði stiga- og markamet efstu deildar karla í knattspyrnu.

Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Birnir Snær Ingason, leikmaður karlaliðs Víkings í knattspyrnu og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Tjarnarsal þegar tilkynnt var um val á íþróttafólki Reykjavíkur 2023.

Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Birnir Snær Ingason, leikmaður karlaliðs Víkings í knattspyrnu og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.