AMIGOS - Mælitæki við Hlemm

Borgarhönnun Hjólaborgin

Mobility Observation Box á gatnamótum

AMIGOS verkefnið setur upp tvo skynjara við Hlemm til að mæla umferð fólks og farartækja í rannsóknarskyni.

Mælingar til að greina hættur í blandaðri umferð

AMIGOS er stytting á "Active Mobility Innovations for Green and safe city sOlutionS" og heitið á 4ra ára samstarfsverkefni 28 aðila víða að úr Evrópu sem er kostað af CINEA stofnun ESB.

Þetta er nýsköpunarverkefni um öryggi og upplifun sem jafnframt snýr að því hvernig útfæra má öruggar, ódýrar og sjálfbærar lausnir sem skilja engan útundan (t.d. aldraða, fatlaða og ungmenni). 

Umbreytingar við Hlemm og nágrenni eru helsta viðfangsefnið hérlendis til að ná árangri á þessu sviði og skapa fordæmi, en gagnasöfnun er afar mikilvægur liður í þessari vinnu. Reykjavíkurborg og aðrir opinberir aðilar safna gögnum um slysatíðni, mengun og hávaða, og gera reglulegar mælingar á fjölda bifreiða, hjólandi og gangandi vegfarenda á svæðinu.

Þessu til viðbótar eru samstarfsaðilar í Austurríki að mæla hættur í blandaðri umferð á mismunandi tímum ársins og vorið 2024 munu norskir samstarfsaðilar bjóða sjálfboðaliðum að virkja smáforrit til að rekja megi daglegar ferðir þeirra með viðkomu á Hlemmi.

Tilgangur og markmið snjallmæla

MOB (Mobility Observation Box) er mælitæki þróað af Austrian Institute of Technology (AIT). Mælitækið er nú þegar notað í rannsóknarskyni víða um Evrópu með áherslu á að greina helstu hættur í blandaðri umferð þar sem skarast ferðir fólks og farartækja af ólíkum toga.

Tækið hefur hlotið jákvæða umfjöllun gagnaverndareftirlitsins í Austurríki sem starfar á sama grunni og Persónuvernd hérlendis, þ.e., að tryggja að Evrópsku gagnaverndarlöggjöfinni sé fylgt sem og viðeigandi lögum í heimalandinu.

Helstu viðmiðanir við notkun tækisins snúa að skýrum tilgangi gagnasöfnunar í vísindaskyni, þ.e., við rannsóknir á vörnum gegn umferðarslysum og þar með í þágu almannahagsmuna. Meginreglum er fylgt um gagnamagn og meðalhóf til að ná því markmiði, t.d., er myndefni allt úr fókus og mælingarnar aðeins gerðar í 7-10 daga í einu.

Öryggi gagnanna er markvisst tryggt. Allur gagnastraumur er dulkóðaður við söfnun og ekki tekinn til vinnslu fyrr en rannsóknarstofa AIT fær tækið i hendurnar. Einnig er tryggt að frumgögn séu ekki notuð í öðrum tilgangi en stendur til vegna framvindu AMIGOS, þar með talin eru tímamörk sem sett eru á varðveislu þegar söfnun og greiningu er lokið. 

Reykjavíkurborg leitast við að tryggja í hvívetna áreiðanleika, trúnað og öryggi allra persónuupplýsinga sem borgin vinnur með, sbr. Persónuverndarstefnu Reykjavíkurborgar.

Mælingar við Hlemm standa yfir frá og með 27 október til og með 6 nóvember.

MOB var nýlega verðlaunað fyrir mikilvægi þess í rannsóknum AIT stofnunarinnar á umferðaröryggi.

Tengiliðir hjá Reykjavíkurborg