Alþjóðleg hugmyndasamkeppni um uppbyggingu

Skipulagsmál Stjórnsýsla

Síló við Sævarhöfða með Sundahöfn og sundin blá í bakgrunni.

Tvö uppbyggingarsvæði í Reykjavík eru hluti af alþjóðlegri hugmyndasamkeppni „Reinventing Cities“, en það eru grænar þróunarlóðir í  Gufunesi og við Sævarhöfða.

Reykjavík er í góðum hópi annarra þátttökuborga frá Singapore til San Francisco. Borgirnar tilheyra C40 borgum sem leggja áherslu á bætta lýðheilsu og sjálfbærni.

Kynningarfundur og vettvangsferð   

Kynningarfundur um verkefnið verður haldinn mánudaginn 2. mars kl. 10:00 í Ráðhúsi Reykjavíkur og í framhaldi verður farin vettvangsferð á svæðin tvö með leiðsögn. Erlendir hönnuðir hafa þegar boðað komu sína ásamt íslenskum kollegum. Fundurinn verður á ensku. Mikilvægt er að skrá þátttöku á upplýsingasíðu fundarins

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er gestgjafi og býður til þessa áhugaverða fundar. Costanza De Stefani mun kynna C40 og Reinventing Cities verkefnið. Halldór Eiríksson, arkitekt hjá T:ark segir frá „Living Landscape“ vinningverkefni síðustu samkeppni. Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisverkfræðingur og framkvæmdastjóri Grænni byggðar flytur erindið „Grænni byggð með C40“.  Að lokum kynnir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs lóðirnar tvær sem eru hluti af samkeppninni í ár að hálfu Reykjavíkurborgar.
 

Gufunes – skapandi svæði

Þróunarsvæðið í Gufunesi sem er hluti af samkeppninni er nærri 5 þús. fermetrar og er áréttað í keppnislýsingu að svæðið í heild verði segull skapandi lista og að á keppnissvæðinu sjálfu sem er við ströndina séu mikil tækifæri fyrir heilsutengda starfsemi. Nánari upplýsingar eru í keppnislýsingu.  

Nýtt hlutverk iðnaðarmannvirkja við Sævarhöfða  

Á þróunarsvæðinu við Sævarhöfða eru 40 metra há mannvirki, turnar sem í keppnislýsingu eru sagði geta verið áfram með nýtt hlutverk. Þróunarlóðin er nærri 3 þús. fermetrar. Nánari upplýsingar eru í keppnislýsingu.

Nánari upplýsingar