Alþjóðadagur móðurmálsins

Skóli og frístund Mannlíf

""

Í dag er alþjóðlegur dagur móðurmálsins og efna UNESCO hér á landi og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til nokkurra viðburða á næstu dögum af því tilefni.

Leitað hefur verið eftir samstarfi við fjölmarga og er Borgarbókasafn Reykjavíkur og skóla - og frístundasvið borgarinnar meðal þeirra. Í ár verður vakin athygli á starfi þeirra sem vinna að því að efla ólík móðurmál, hvatt til umræðu í skólum um hvernig megi koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku og myndböndum um efnið komið á framfæri, sjá m.a. myndband hér, 

Efnt verður til samvinnu við skóla um allt land sem felur í sér skráningu einstakra bekkja á tungumálaforða sínum og haldinn verður fyrirlestur um ólík móðurmál í skólakerfinu. Móðurmálsvikunni lýkur með málþingi í Norræna húsinu, föstudaginn 28. febrúar, kl. 15-17.

Á vefsíðu Tungumálatorgs er dagskráin öll ásamt hugmyndabanka sem ætlað er að virkja móðurmál á ýmsan hátt. Einnig er hægt að skrá tungumálaforða skóla og vinnustaða.

Dagskrá Borgarbókasafns í móðurmálsvikunni
Föstudagur 21. febrúar kl. 13-15 í Gerðubergssafni
Hvernig hljómar sagan „Gráðuga Lirfan“ á hinum ýmsu tungumálum? Sögustund fyrir börn á 10 tungumálum (pólsku, spænsku, portúgölsku, litháísku, lettnesku, víetnömsku, íslensku, ensku, tékknesku, frönsku) í samstarfi við Samtökin Móðurmál. Sögubíllinn Æringi og Björk bókavera verða á staðnum.

Laugardagur 22. febrúar kl. 14 í  Gerðubergssafni
Albönsk tunga og menning í Café Lingua, Mirela Protopapa og Vatra, félag Albana á Íslandi veita innsýn í albanska tungu og menningu. Gestum gefst tækifæri til að kynnast albanskri sögu, náttúru, matarvenjum, búningum, hlusta á tónlist og læra nokkur orð á albönsku. Dagskráin er á vegum Café Lingua, í samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg.
Allir eru velkomnir og þátttaka ókeypis. Kaffi og te á könnunni. Börnin eru velkomin með í Café Lingua og geta dundað sér við lestur bóka og teiknað og litað.
Sjá nánar um Café Lingua.