Allt að 70% íbúða í sumum götum eru á Airbnb

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Í dag voru birtar niðurstöður rannsóknar á áhrifum Airbnb á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Helstu niðurstöður eru að fjöldi skráðra eigna hjá Airbnb hefur marfaldast síðastliðin ár. Þéttleiki er mestur í 101 Reykjavík og næsta nágrenni en þar eru 60% skráðra eigna, og í sumum götum er allt að 70% eigna skráðar á Airbnb.

Í apríl 2019  voru 58% skráðra eigna Airbnb í Reykjavík starfræktar án lögbundins leyfis. Þá virðist Airbnb og stuttir leigusamningar frekar hafa ýtt undir félagslegan ójöfnuð á höfuðborgarsvæðinu, eins og lesa má í niðurstöðum.

Um verkefnið

Verkefnið hafði tvö markmið.  Annars vegar að gera tölfræðilega úttekt á þróun framboðs og landfræðilegri dreifingu Airbnb á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2016-2018 og kanna hversu stór hlutfall hafði tilskilið leyfi.  Hins vegar var kannað á hvaða forsendum leigusalar starfrækja Airbnb á höfuðborgarsvæðinu, hvaða áhrif starfsemin hefur haft á húsnæðismarkaðinn og hvaða áhrif það hefur haft í för með sér fyrir heimamenn.

Nánari niðurstöður       

Niðurstöður voru í stórum dráttum þær að fjöldi skráðra eigna hjá Airbnb hefur margfaldast á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnum árum t.d. var tvöföldun á tímabilinu janúar 2016 – janúar 2018  þegar skráðum eignum fjölgaði úr 2032 í 4154.  Um þrjár af hverjum fjórum skráðum eignum í Reykjavík eru heilar eignir (íbúðir/hús) sem er hærra hlutfall en í flestum öðrum fjölsóttum borgum Evrópu.

Hvað varðar landfræðilega staðsetningu eru 80% skráðra eigna á höfuðborgarsvæðinu staðsettar í Reykjavík, 37% í 101 Reykjavík, 17% í 105 Reykjavík og 7% í 107 Reykjavík.  Miðborgin og næsta nágrenni hýsir því yfir 60% skráðra eigna. Þær götur sem hafa flestar Airbnb eignir á skrá eru Laugavegur, Hverfisgata, Grettisgata, Berþórugata, Óðinsgata og Bjarnarstígur, en allt að 70% eigna í þessum götum eru skráðar hjá Airbnb. Í apríl 2019 voru 2.567 eignir í Reykjavík (einni og sér) skráðar á Airbnb og þar af voru 58% starfræktar án lögbundins leyfis.

Í rannsókninni kom fram að leigusalar er ekki einsleitur hópur með einsleit markmið eða viðskiptaaðferðir og áhrifin eftir því ólík. Á meðan sum viðskiptamódel hafa fært eignarhald frá heimilum til fjárfesta og viðskipta, hafa önnur hjálpað íbúum að halda í heimili sín og/eða eiga fyrir lífsnauðsynjum. Ein af megin niðurstöðum rannsóknarinnar er sú að Airbnb og stuttir leigusamningar virðast þó frekar ýta undir félagslegan ójöfnuð. Starfsemin getur skapað fjárhagsleg tækifæri fyrir þá sem þegar eiga eignir og þannig treyst enn betur stöðu þeirra á húsnæðismarkaði. Hins vegar eru afleiðingarnar minna framboð og hærra verð sem gerir þeim sem eru á höttunum eftir að eignast heimili til kaups eða leigu erfiðara fyrir.

Um rannsakanda  

Dr. Anne-Cécile Mermet, borgarlandfræðingur og lektor við Sorbonne háskóla í París, framkvæmdi rannsóknina fyrir hönd Höfuðborgarstofu með styrk frá Ferðamálastofu og Íbúðalánasjóði.  Hún hefur einnig rannsakað félagsleg- og umhverfisleg áhrif viðskiptatengdra markmiða í París.

Kynning á niðurstöðum: AirBnB and the housing market in Reykjavík