Álit borgarlögmanns lagt fram í innkauparáði | Reykjavíkurborg

Álit borgarlögmanns lagt fram í innkauparáði

fimmtudagur, 18. október 2018

Borgarlögmaður lagði fram álit um fylgni við innkaupareglur vegna framkvæmda við þrjár byggingar við Nauthólsveg 100 á fundi innkauparáðs í dag.

 

 

  • Nauthólsvegur 100, braggi og skemma.
    Við Nauthólsveg 100 hefur Reykjavíkurborg gert upp bragga frá stríðsárunum og tvær aðrar byggingar sem áður hýstu m.a. flugvallarhótel sem kallað var Hótel Winston.

Á fundi innkauparáðs í dag lagði borgarlögmaður fram álit um fylgni við innkaupareglur við gerð samninga um Nauthólsveg 100. 

Niðurstaða borgarlögmanns er sú að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hafi ekki brotið lög með gjörningum sínum en brotið hafi verið gegn innkaupareglum Reykjavíkurbogar.

Borgarlögmaður greinir einnig frá því í álitinu að tafir við framlagningu álitsins stafi af því að upplýsingar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar lágu ekki fyrir fyrr en 15. október sl. Kemur fram í álitinu að borgarlögmaður hafi  áður upplýst innkauparáð um tafir á afhendingu upplýsinga og gagna á fundum ráðsins en að ráðið hafi ekki bókað um þær sérstaklega á fundum sínum. 

Borgarlögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt samkvæmt þágildandi lögum um opinber innkaup nr. 84/2005 og sé því ekki um brot á þeirri löggjöf að ræða í tilviki endurbyggingar á húsaþyrpingunni við Nauthólsveg 100.

Innkauparáð telur að álitið nýtist vel við endurskoðun innkaupareglna sem nú stendur yfir.

Álit borgarlögmanns um gerð samninga um Nauthólsveg 100

Fundargerð innkauparáðs 18. október 2018