Álfaland

Velferð

""

Við Álfaland er rekin skammtímavistun fyrir langveik og fötluð börn. Markmiðið er að veita foreldrum og/eða forsjáraðilum fatlaðra  og langveikra barna skammtímavistun til að létta á heimilum og gefa forsjáraðilum kost á að komast í frí. 

Skammtímavistun er um leið afþreying og tilbreyting fyrir börnin, sem eru á aldrinum 2-12 ára. Þau geta dvalið frá einni nóttu í allt að eina viku hverju sinni.  
Sex börn geta dvalist í senn í Álfalandi en 32-40 börn eru í skammtímavistun þar á ári hverju.  

Samkvæmt forstöðumanni, Margréti Lísu er mikið lagt upp úr því að 100% nýting sé á heimilinu. Það geti skipt sköpum fyrir foreldri fatlaðs barns, að fá hvíld, þó ekki sé nema í hálfan sólarhring, og fá tækifæri til að horfa á sjónvarp eina kvöldstund, hitta vini og vandamenn eða fá góðan nætursvefn. Því er það þannig að þegar einhver boðar forföll í skammtímavistunina er alltaf öðru barni boðin vistun í staðinn.

Margrét Lísa segir að ef börnin búi heima í umsjón foreldra sinna þá taki Álfaland við þeim í vistun. Það er ekki mikil starfsmannavelta í Álfalandi en meðal 28 starfsmanna er góð blanda af ungu fólki og eldri reynsluboltum.  Þess má geta að nokkrir starfsmenn hafa um 30 ára starfsreynslu og er forstöðumaðurinn Margrét Lísa Steingrímsdóttir einn þeirra.  Mikið er lagt upp úr því að börnum og starfsmönnum líði vel. 

Álfaland er eitt margra úrræða fyrir börn hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar en nýlega var gerð samantekt um þjónustu við börn á sviðinu.