Akurey gerð að friðlandi fugla

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Akurey í Kollafirði var formlega friðlýst sem friðland í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsinguna og samhliða því undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri yfirlýsingu um samþykki landeiganda fyrir friðlýsingunni.

Verndargildi eyjunnar er ekki síst fólgið í mikilvægi hennar sem sjófuglabyggðar en í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur. Eyjan flokkast því sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð. Á veturna er eyjan mikilvæg dvalarstöð skarfa.

Markmiðið með friðlýsingunni er því að vernda þetta mikilvæga búsvæði fugla, og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir fuglategundir sem teljast í bráðri hættu. Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Hið friðlýsta svæði er þó mun stærra eða 207 hektarar að stærð þar sem markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki í fjöru, á grunnsævi og hafsbotninum umhverfis eyna.

 „Lundinn er tegund sem er í bráðri útrýmingarhættu hér á landi. Það er þess vegna brýnt að við verndum búsvæði hans og friðlýsing Akureyjar er liður í því,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Friðlýsingahjólin eru farin að snúast og ánægjulegt að fyrsta friðlýsingin sem lýkur í yfirstandandi átaki stjórnvalda skuli einmitt stuðla að vernd þessarar mikilvægu fuglategundar, sem má kannski segja að sé orðin ákveðinn einkennisfugl landsins. Með friðlýsingunni verndum við líka búsvæði teistu og æðar sem einnig eru á válista.“

Friðlýsing Akureyjar markar tímamót í sögu náttúruverndar í Reykjavík. Um er að ræða fyrstu friðlýsingu í 20 ár eða síðan náttúruvættið Fossvogsbakkar voru friðlýstir árið 1999. Þá verður Akurey fyrsta friðlandið í Reykjavík og fyrsta náttúrusvæðið sem er friðlýst vegna líffræðilegrar fjölbreytni og þá sér í lagi fuglalífs. Friðlýsingin er einnig sú fyrsta sem klárast í friðlýsingarátaki umhverfis- og auðlindaráðherra sem ýtt var úr vör á síðasta ári.

Við athöfnina greindi Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri frá því að friðlýsingin væri sannarlega tímamót fyrir náttúruvernd í Reykjavík og stórt skref í að fylgja eftir stefnu borgarinnar um líffræðilega fjölbreytni þar sem lögð er áhersla á öfluga verndun. Einnig sagði borgarstjóri að áhugi væri fyrir frekara samtali milli borgarinnar og umhverfis –og auðlindaráðuneytisins um að skoða fleiri friðlýsingar á mikilvægum náttúrusvæðum í borginni, þar með talið fleiri fuglabúsvæðum.

Friðlýsingarferli Akureyjar hófst fyrir um fimm árum með áskorun Fuglaverndar til Reykjavíkurborgar. Borgaryfirvöld samþykktu í kjölfarið að hefja friðlýsingarferli og er nú þessum merka áfanga náð eftir gott samstarf við Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Framundan er vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Akurey og er stefnt að klára hana á næstu mánuðum en gerð áætlunarinnar er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar.

Upplýsingar um friðlýsinguna, afmörkun friðlýsta svæðisins og friðlýsingarskilmálar verða birtar á vef Umhverfisstofnunar á næstu dögum.