Akstur hópbifreiða um miðborgina óheimill

Samgöngur

""

Þann 15. júlí næstkomandi tekur gildi breytt fyrirkomulag varðandi akstur hópbifreiða um miðborgina. Reglurnar voru samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði 3. maí og í borgarráði 11. maí 2017. 

Frá og með 15. júlí nk. verður hópbifreiðum óheimilt að aka um götur innan skyggða svæðisins á meðfylgjandi mynd. Þó verður heimilt að aka um Lækjargötu. Akstursbannið gildir fyrir bifreiðar yfir 8 metrar að lengd og allar hópbifreiðar. Einnig verður sérútbúnum bifreiðum, t.d. til fjallaferða, óheimilt að aka innan bannsvæðis, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu, samanber 9. grein laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi númer 28/2017. Átt er við bifreiðar sem notaðar eru í atvinnurekstri í tengslum við þjónustu við ferðamenn. Undanþegin banni eru m.a. ökutæki merkt Reykjavíkurborg, skólabifreiðar og akstursþjónusta fatlaðra sem fellur undir lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992.

Skilgreindar akstursleiðir

Akstursleiðir hópbifreiða í miðborginni verða með þeim hætti sem sjá má hér að ofan. Með skilgreindum akstursleiðum er akstursskipulag rútufyrirtækja einfaldað. Hópbifreiðar með ferðamenn eiga að aka um valdar götur, sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Ekið verður upp Eiríksgötu og niður Njarðargötu, upp Ingólfsstræti og Hverfisgötu. Þá verður ekið austur Túngötu og Vonarstræti. Umferð hópbifreiða er heimil í báðar áttir á öðrum akstursleiðum sem sýndar eru á myndinni.

Safnstæði

Safnstæði verða á 12 stöðum í miðborginni sem má sjá á meðfylgjandi mynd. Stæðum við Tryggvagötu, Snorrabraut og Austurbæ verður komið fyrir á næstu vikum. Þá verða stæði við Safnahúsið og Höfðatorg stækkuð. Núverandi og ný stæði verða merkt með skýrum hætti. Þar sem ný safnstæði bætast við og stæðin við Kvosina, Ingólfstorg og Hnitbjörg detta út verður númerakerfi safnstæðanna uppfært, frá og með 15. júlí, skv. meðfylgjandi mynd. Kannaður verður grundvöllur þess að koma fyrir biðskýlum á völdum stöðum þegar reynsla er komin á notkun safnstæðanna.
Á vefnum busstop.is er hægt að sjá yfirlit yfir safnstæðin. 

Rútustoppistöðvar í Miðborginni