Áhrif stafrænna umbreytinga á opinbera þjónustu
Alþjóðleg ráðstefna um áhrif stafrænna umbreytinga á opinbera þjónustu við evrópskan og íslenskan almenning verður haldin í ráðhúsi Reykjavíkur fimmtudaginn 21. september kl. 9 – 12.
Ráðstefnan verður á ensku með völdum fyrirlesurum og pallborði. Dagskrána má skoða á enskri síðu málþingsins: Disruptive innovation: The implications of new-emerging eID and eGOV solutions.
Áhugasamir eru beðnir um að skrá þátttöku.
Það eru Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi ásamt IMPULSE verkefninu sem standa að ráðstefnunni.
Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi (European Digital Innovation Hub Iceland – EDIH-IS) hóf starfsemi sína fyrr á þessu ári og mun Sverrir Geirdal, framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar, segja frá hlutverki hennar í opnunarávarpi ráðstefnunnar.
IMPULSE rannsóknarverkefnið snýst um framtíð rafrænna auðkenna og meðhöndlun gagna í viðskiptum fólks við opinberar þjónustur og stofnanir. Reykjavíkurborg tekur þátt í verkefninu. IMPULSE er hannað með tilliti til þróunar í Evrópu síðustu ár varðandi bætt öryggi opinberra skilríkja og sam-evrópskra staðla fyrir rafræn auðkenni sem Íslendingar þekkja sem rafræn skilríki í síma og svo það nýjasta, Auðkennisappið. Meðal annars leggur verkefnið upp með að andlitsgreining sé mikilvægur kostur að bjóða uppá, að persónuupplýsingar og gögn eigi að vera eign einstaklinganna sjálfra, ekki stofnana, og að í framtíðinni geti íbúar Evrópu notað eitt rafrænt auðkenni þvert á landamæri innri markaðarins. IMPULSE rannsóknarverkefnið er liður í tæknilegri framþróun borgarinnar og er í umsjón atvinnu- og borgarþróunarteymis.