Ný samstarfsyfirlýsing Hjallastefnunnar og Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarráði í dag. Samkvæmt henni skuldbindur Hjallastefnan sig til að gera tímabundinn leigusamning um húsnæði og flytja skólastarf sitt úr núverandi húsnæði við Nauthólsveg, vegna uppbyggingar nemendaíbúða HR á svæðinu.
Hjallastefnan mun halda úti skólastarfi fyrir leik- og grunnskólabörn í hinu leigða húsnæði á næsta skólaári og Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að taka þátt í leigukostnaði á meðan í gildi er þjónustusamningur við Hjallastefnuna um rekstur skólastarfs í húsnæðinu. Verði niðurstaðan sú að leiguhúsnæðið henti sem framtíðarskólahúsnæði fyrir Reykjavíkurborg mun borgin innan tveggja ára ganga frá samningum og aðlögun húsnæðisins til að það geti hýst skólastarf Hjallastefnunnar. Nýti Reykjavíkurborg ekki kauprétt til að kaupa leiguhúsnæðið mun hún ljúka undirbúningi og uppbyggingu nýs skólahúsnæðis borgarinnar, sem hýst getur skólastarf Hjallastefnunnar, en þar er horft til suðurhlíða Öskjuhlíðar.
Þróun leikskólastarfs
Í leiguhúsnæðinu mun fara fram öll sú starfsemi sem nú er í leikskólanum Öskju og Barnaskólanum í Reykjavík en þar verður að auki 60 barna ungbarnaleikskóli sem verður hluti af aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar, Brúum bilið. Með henni verður leikskólaplássum fjölgað til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og tryggja hag ungbarnafjölskyldna. Þá verða samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni kortlögð tækifæri til að nýta starfsemina í takti við nýjar áherslur í skólastarfi, svo sem sveigjanleika milli skólastiga og aðlögun starfshátta til að sinna hópum barna með mismunandi þarfir. Jafnframt kemur til álita, í fyrsta sinn á Íslandi, að opna dagheimili; það er opinn leikskóla að norrænni fyrirmynd, fyrir foreldra í fæðingarorlofi og heimavinnandi foreldra, sem geta verið með börnum sínum studd af fagfólki og öðrum foreldrum í sömu stöðu. Foreldrar af erlendum uppruna og foreldrar sem glíma við veikindi eða félagslegan vanda gætu til dæmis notið góðs af slíkri þjónustu.
Framtíð Hjallastefnunnar er á krossgötum en gagnkvæmur vilji er til þess að standa vörð um skólasamfélagið sem nú er í Öskjuhlíð og verður því lögð áhersla á að tryggja framtíðarlausn um húsnæðismál.