Afhjúpun nýs umferðarmerkis fyrir bílastæði hreyfihamlaðra við Laugardalslaug
ÖBÍ réttindasamtök og Vegagerðin afhjúpuðu ásamt borgarstjóra nýtt umferðarmerki fyrir bílastæði hreyfihamlaðra við Laugardalslaug.
Hið nýja merki, sem var á meðal þeirra sem tóku gildi í reglugerð í mars síðastliðnum, er sérstaklega ætlað fyrir stærstu bílastæði hreyfihamlaðra sem nýtast lyftubílum og var tekið í gildi að beiðni ÖBÍ réttindasamtaka. Umferðarmerkið er hvergi annars staðar í notkun í heiminum.
Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, mun hélt tölu um mikilvægi merkisins og afhjúpaði skiltið ásamt Einari Þorsteinssyni borgarstjóra. Þá hélt borgarstjóri halda stutta tölu áður en Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengishóps ÖBÍ, lagði í fyrsta sinn í stæði sem merkt er með þessum hætti.
Með þeim við afhjúpunina voru Einar Pálsson, forstöðumaður vegaþjónustudeildar Vegagerðarinnar, og aðgengishópur ÖBÍ réttindasamtaka.
„Aðgengishópurinn er búinn að berjast fyrir þessu síðan 2018. Ég hef það fyrir víst að þetta er eina svona skiltið sem til er í heiminum. Þetta er sérstaklega fyrir þessi stæði sem eru fyrir þau sem nota stóra bíla og eru með lyftu. Við erum mjög hamingjusöm með að hafa náð þessu í framkvæmd,“ sagði Alma Ýr, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, við afhjúpunina.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagðist meðal annars þakklátur. „Ég er þakklátur fyrir að þessi mál séu alltaf skref fyrir skref að þokast í rétta átt. Borgin réði ekki alls fyrir löngu sérstakan aðgengisfulltrúa, stöðugildi sem vinnur þvert á alla starfsemi borgarinnar og skiptir gríðarlegu máli. Ég er þakklátur fyrir að eiga í samvinnu við öflug hagsmunafélög fatlaðs fólks, sem koma með hugmyndir og halda okkur við efnið. Meðal annars með því að láta hanna þetta skilti.“
Bergur Þorri lagði fyrstur í hið nýmerkta stæði og sagði þetta skipta verulegu máli. „Þetta skiptir máli vegna þess að það er mikilvægt að reyna að aðgreina stæðin þannig þeir sem eru á stóru bílunum, með lyftu sérstaklega, geti gengið að stærstu stæðunum vísum. Þetta er líka mikilvægt upp á að menn séu ekki að samnýta stæðin, það er að það sé fleiri en einum bíl lagt í sama stæðið. Þetta er liður í að koma þeim skilaboðum áleiðis,“ sagði Bergur Þorri. Annars sé hætta á að fólk komist hvorki úr bílnum sínum né í hann.
„Þetta var kærkomið tækifæri, þegar það var komið að endurskoðun reglugerðarinnar í kjölfar nýrra umferðarlaga, að endurskoða reglugerðina í heild og taka þá upp þessar óskir ÖBÍ,“ sagði Einar Pálsson, forstöðumaður vegaþjónustudeildar Vegagerðarinnar.