Aðgengilegir matjurtakassar í þróun í Grasagarði Reykjavíkur

Aðgengilegir matjurtakassar sem verið er að þróa í Grasagarði Reykjavíkur
Aðgengilegir matjurtakassar sem verið er að þróa í Grasagarði Reykjavíkur

Aðgengilegir matjurtakassar eru núna í þróun hjá Reykjavíkurborg og er fyrsta útgáfan til sýnis í Grasagarði Reykjavíkur um þessar mundir. Markmiðið með matjurtakassanum er að auðvelda aðgengi fólks að borgarrýmum, í samræmi við aðgengisstefnu Reykjavíkur.

Matjurtakassinn er upphækkaður og ætti að henta fólki sem notar hjólastóla, göngugrindur eða fólki sem á erfitt með að vinna á hnjánum. 

Um er að ræða samstarfsverkefni á milli Hverfið mitt og aðgengisfulltrúa Reykjavíkur. Í Reykjavík er í gildi aðgengisstefna sem samþykkt var í borgarstjórn árið 2022. Aðgengisstefnan byggir á hugmyndafræði um algilda hönnun. 

 

Matjurtakassi fyrir þá sem nota hjólastól.
Matjurtakassi fyrir fólk sem notar hjólastól .

 

Kassinn var hannaður af Ragnhildi Skarphéðinsdóttur og Svövu Ragnarsdóttur hjá Hornsteinum Arkitektum og smíðaður og útfærður af Hjálmari Hjálmarssyni í Kúnstverk. Kassin er útfærður þannig að borð er fyrir fólk sem notar hjólastól eða göngugrindur sem má svo breyta í sæti fyrir fólk sem á erfitt með að vinna á hnjánum. 

Matjurtakassi þar sem hægt er að sitja þegar verið er að hirða um matjurtakassann
Matjurtakassi fyrir fólk sem vill að sitja og huga að matjurtunum.

 

Fyrstu aðgengilegu matjurtakassarnir verða staðsettir í matjurtagarði í Hlíðunum sem komið verður upp á næsta ári. Sú hugmynd hlaut kosningu í verkefninu Hverfið mitt í fyrra.

Í Grasagarði Reykjavíkur er hægt að skoða frumgerðina af matjurtakassanum, en búast má við að kassinn geti tekið einhverjum breytingum eftir ábendingar frá notendum í sumar. Þeir sem vilja koma með hugmyndir um hvað mætti betrumbæta er bent á að senda á adgengi@reykjavik.is