Tillögur að umfangsmiklum breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur voru samþykktar í auglýsingu á fundi borgarstjórnar þann 15. júní síðastliðinn. Breytingarnar snúa einkum að stefnu um íbúðarbyggð innan þéttbýlis borgarinnar. Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum. Drög að tillögunum voru í forkynningu síðastliðinn vetur. Fjölmargar athugasemdir komu fram við drögin og hefur verið komið til móts við margar þeirra í þeirri tillögu sem nú hefur verið samþykkt í auglýsingu.
Þétt og blönduð byggð í grænni og skemmtilegri borg
Markmið breytinganna er að skapa þétta og blandaða byggð innan núverandi þéttbýlis Reykjavíkur til ársins 2040. Með tillögunum er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040 og sennilega mun lengur. Það þýðir að auðveldara er að framfylgja markmiðum borgarinnar um sjálfbæra þróun, verndun ósnortinna svæði í útjaðri, líffræðilega fjölbreytni, kolefnishlutleysi, vernd grænna útivistarsvæða, vistvænni ferðavenjur og uppbyggingu Borgarlínu og fjölbreyttari og skemmtilegri borg.
Kröftugur og sjálfbær vöxtur
Tilgangur breytinganna er meðal annars að tvinna betur saman áætlanir um uppbyggingu húsnæðis og fjölgun íbúa og starfa, við áform um byggingu og styrkingu vistvænna samgöngukerfa; Borgarlínu, stofnleiða Strætó bs, hjólastígakerfi og gönguleiðir. Tillögurnar eru í takti við Loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040, leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, megin markmið aðalskipulagsins, áform húsnæðisáætlunar og áherslur Græna plansins.
Ætlunin er að skapa forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar jafnhliða því að styðja við markmið um sjálfbæra borgarþróun, kolefnishlutleysi árið 2040, vernd náttúrusvæða og líffræðilega fjölbreytni og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.
Uppfærð og endurbætt útgáfa Aðalskipulags Reykjavíkur 2030
Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, (AR2040, tillaga) er uppfærð og endurbætt útgáfa þess aðalskipulags (AR2030) sem staðfest var fyrir rúmum sjö árum. AR2040 byggir þannig á sýn og stefnumörkun AR2030, sem samþykkt var í febrúar árið 2014 að undangengnu löngu og ítarlegu samráðs og kynningarferli. Breytingar miða þannig allar að því að tryggja betur framfylgd núgildandi megin markmiða aðalskipulagsins um sjálfbæra borgarþróun.
Ábendingar og athugasemdir
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til Umhverfis- og skipulagssviðs, Borgartúni 12-14 eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 23. ágúst 2021.
Tillagan liggur frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:30 – 16:00, frá 21. júní 2021 til og með 23. ágúst* 2021. Tillagan er einnig til sýnis á Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b.
*Nýtt: Frestur hefur verið framlengdur til 31. ágúst.